Heldur hefur hægt á hagvexti í Kína og hefur hann ekki verið jafn lítill í fjórtán ár. Hagvöxtur mældist 7,7% á fjórða ársfjórðungi í fyrra en var 7,8% á sama tímabili árið á undan. Þrátt fyrir minni hagvöxt er hann meiri en spá stjórnvalda hljóðaði upp á.
David Wilder, sem stýrir skrifstofu Market News International-upplýsingaveitunnar í Peking, segir í samtali við BBC að þetta sé í takt við væntingar stjórnvalda í Kína. Kínverska hagkerfið geti ekki vaxið endalaust og megi ekki vaxa jafn hratt of það hefur gert. Minni hagvöxtur í Kína sé af hinu góða.
Kínverska ríkið hefur leikið lykilhlutverk í þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Innlendir bankar hafa lánað háar fjárhæðir til þess að koma í veg fyrir niðursveiflu í Kína á sama tíma og samdráttur hefur ríkt í Evrópu og víðar. Óttast ýmsir að ekki hafi verið beitt nægjanlegri varfærni við útlánin og að ekki fáist lánin öll endurgreidd.