Heimilum í vanskilum hélt áfram að fækka í desembermánuði en þeim fækkaði um tæp 25%, eða um 1.172 heimili, á árinu 2013. Fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir desembermánuð að samfelld lækkun hafi verið á vanskilum einstaklinga síðastliðina sex mánuði.
Þá eru alls 3.543 heimili í vanskilum og þar af eru 271 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru 7,23% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok desember 2013, en sambærilegt hlutfall í lok árs 2012 var 9,3%.
Í mánaðarskýrslunni kemur einnig fram að uppgreiðslur hafi numið 1,1 milljarði króna.
Þá námu heildarútlán sjóðsins 770 milljónum króna í mánuðinum, en þar af voru 670 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í desember 2012 um 940 milljónum króna. Heildarfjárhæð almennra lána á árinu 2013 er samtals 9,3 milljarðar króna en var 12,9 milljarðar 2012.
Alls veitti sjóðurinn 906 almenn íbúðalán á árinu, til samanburðar við 1.314 lán á árinu 2012.
Í mánaðarskýrslunni segir að í lok desember hafi Íbúðalánasjóður átt 2.606 fullnustueignir um land allt og hefur eignunum fækkað um eina frá því í lok nóvembermánaðar.
Í útleigu voru 1.306 íbúðir um land allt en langflestar þeirra eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær.
„Á árinu 2013 seldi Íbúðalánasjóður 307 fasteignir en á sama tímabili 2012 seldi sjóðurinn 123 eignir. Hefur sala eigna því tæplega þrefaldast frá því sem hún var árið 2012. Þá er að auki búið að samþykkja kauptilboð í 93 eignir til viðbótar þeim 307 sem seldar voru á árinu og vinna nú tilboðshafar að fjármögnun kaupanna,“ segir jafnframt í skýrslunni.