Merki eru um aukinn efnahagsbata í heiminum á sama tíma og stjórnvöld í fjölmörgum ríkjum draga úr aðhaldsaðgerðum sínum og styrkja fjármálakerfi sín, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Sjóðurinn hækkaði hagvaxtarspá sína fyrir allan heiminn í dag en nú spáir hann því að hagvöxturinn mælist 3,7% á þessu ári. Í fyrra mældist hann um þrjú prósent. Olivier Blanchard, aðalhagfræðingur sjóðsins, sagði þó að efnahagsbatinn væri bæði „veikur og ójafn“.
Þetta er í fyrsta sinn í næstum tvö ár sem sjóðurinn endurskoðar hagvaxtarspá sína upp á við.
Í samtali við fjölmiðla benti Blanchard jafnframt á að fjármálakerfið væri óðum að styrkjast og að óvissan væri minni en oft áður.
Hann sagði þó að mikill munur væri enn á efnahagsbatanum í Bandaríkjunum og í Evrópu. Hagvöxtur hefði tekið vel við sér vestanhafs á meðan batinn væri brothættur í Evrópu, sér í lagi í jaðarríkjum Evrópusambandsins. Þá sagði hann að atvinnuleysi væri enn alltof hátt.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er tiltölulega bjartsýnn á horfurnar en hann spáir 3,9% hagvexti á næsta ári. Nýmarkaðsríkin muni halda hagvextinum að mestu uppi, en á þessu ári gerir sjóðurinn ráð fyrir 7,5% hagvexti í Kína, 5,4% hagvexti í Indlandi, tveggja prósenta hagvexti í Rússlandi og 2,3% hagvexti í Brasilíu.
Í Bandaríkjunum spáir sjóðurinn 2,8% hagvexti, eins prósents hagvexti í Evrópu og 1,7% hagvexti í Japan.