Veitingastaðurinn Kántrýbær á Skagaströnd er til sölu. Þetta staðfesti Gunnar Halldórsson, sem rekið hefur staðinn með eiginkonu sinni, Svenný Hallbjörnsdóttur, í samtali við mbl.is.
Gunnar er jafnframt tengdasonur Hallbjarnar Hjartarsonar, kúrekasöngvara með meiru.
„Okkur hjónunum langar að breyta til. Við erum búin að reka þetta í ansi mörg ár,“ segir Gunnar.
Hann segir að fyrst um sinn verði reksturinn seldur og húsið leigt út. Sala á húsinu verði síðan skoðuð í framhaldinu.
Gunnar nefnir að reksturinn hafi gengið ágætlega. Góður gangur hafi verið í sölunni í sumar og á veturna sjái þau um matinn fyrir skólakrakka á Skagaströnd.
Aðspurður segir hann að nokkrir hafi sýnt staðnum áhuga, en að ekki enn hafi borist nein formleg tilboð.