Mike Riddell, sjóðsstjóri hjá breska fjármálafyrirtækinu M&G, segir að aðstæður í kínverska hagkerfinu líkist að sumu leyti því sem var hér á landi fyrir hrun. Kínversku fjárfestingarbólunni svipi til íslensku bólunnar.
Fjallað er um málið í frétt í breska blaðinu Investment Week.
Þar er haft eftir Riddell að fjárfestingar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi aukist mjög í Kína á undanförnum árum, en hlutfallið er nú 54,4%.
Hann segir að mjög hafi dregið úr framleiðni og skilvirkni í landinu og að kínversk stjórnvöld hafi lagt of mikla áherslu á útflutningsstoðirnar, í stað þess að huga að einkaneyslu og innlendri eftirspurn.
Nefnir Riddell að fleiri lönd, svo sem Spánn, Ísland, Suður-Kórea og Tæland, hafi fetað sömu leið. Fyrir hrunið 2008 hafi til dæmis fjárfestingar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á Íslandi verið of miklar og svo sé raunin nú í Kína. Bólan hafi að lokum sprungið hér á landi og eins geti farið í Kína.