Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, segir að batinn á evrusvæðinu frá því um sumarið 2012 hafi verið „stórfelldur“. Samt sem áður sé batinn enn brothættur og komi aðallega til vegna aukins útflutnings.
Þetta kom fram í máli hans á viðskiptaráðstefnunni í bænum Davos í Sviss í dag. Árlega hittist áhrifafólk á sviðum viðskipta og stjórnmála ásamt fræðimönnum og blaðamönnum í bænum og ræðir sín á milli um bæði félagsleg og efnahagsleg vandamál heimsins.
Bankastjórinn benti á að ástandið í Grikklandi hefði meira að segja batnað, þó svo að mikið verk væri enn fyrir höndum. Þá gerði hann lítið úr orðum margra hagfræðinga þess efnis að hætta væri á verðhjöðnun á evrusvæðinu. Lítil hætta væri á slíku.
Verðbólga á evrusvæðinu mældist 0,8 prósent í desember á síðasta ári en var 0,9 prósent í nóvember. Það er langt undir verðbólgumarkmiði Evrópska seðlabankans, sem er tvö prósent.