Sumir viðskiptavinir HSBC bankans í Bretlandi hafa ekki fengið að taka út háar upphæðir af bankareikningum sínum. Ástæðan er sú að þeir geta ekki skýrt frá því hvers vegna þeir þurfa á peningunum að halda.
Stephen Cotton ætlaði fyrr í þessum mánuði að taka út 7 þúsund pund til þess að endurgreiða móður sinni lán sem hún hafði veitt honum. Hann fékk hins vegar ekki að taka út peninginn vegna þess að skýring hans á því hvers vegna hann þurfti peninginn var talin ófullnægjandi. Var honum tjáð að hann þyrfti að mæta upp í bankann með bréf frá móður sinni sem myndi staðfesta skýringu hans. Cotton fékk aðeins að taka út 3 þúsund pund án skýringa. Hann skrifaði kvörtunarbréf til bankans en fékk þau svör að bankinn hafi breytt skilmálum sínum.
Í tilkynningu frá bankanum segir að reglurnar séu til þess að vernda viðskiptavini bankans. Þegar BBC fór á stúfana til þess að athuga hvernig reglurnar voru hjá öðrum bönkum kom í ljós að flestir bankar áskilja sér rétt til þess að spyrja spurninga þegar viðskiptavinir taka út stórar upphæðir. Enginn annar banki sagðist samt biðja um gögn til þess að sýna í hvað peningurinn átti að fara.
Sjá frétt BBC um málið