Kínverskur risi kemur á Drekasvæðið

Rannsóknir standa nú yfir á Drekasvæðinu, en seinna verður farið …
Rannsóknir standa nú yfir á Drekasvæðinu, en seinna verður farið í tilraunaboranir ef niðurstöðurnar verða jákvæðar. Myndin er af olíuborpallinum Leiv Eiriksson, sem hefur verður notaður til olíuleitar við Grænland.

Síðasta miðvikudag afhenti orkumálastjóri fyrirtækjunum Eykon Energy, CNOOC Iceland og Petoro Iceland AS þriðja sérleyfið fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Aðkoma CNOOC hefur vakið nokkra athygli, en þetta er langstærsta fyrirtækið sem kemur að rannsóknum og leit að olíu við Íslandsstrendur. Það hefur á síðustu árum fjárfest í orkugeiranum víða um heim og stóð meðal annars að stærstu beinu erlendu fjárfestingu sem kínverskt fyrirtæki hefur nokkurn tímann ráðist í þegar það keypti kanadíska orkufyrirtækið Nexen árið 2012. Til að setja stærð fyrirtækisins í samhengi nemur markaðsvirði þess um fimmfaldri landsframleiðslu Íslands og er heildarfjöldi starfsmanna CNOOC samsteypunnar rúmlega hundrað þúsund.

Petoro er ríkisolíufyrirtæki Noregs, en það kemur að leyfinu í gegnum samning Íslands og Noregs um landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen. Eykon er í eigu norsks móðurfélags en að baki því standa Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir, Jón Einar Eyjólfsson, Gunnlaugur Jónsson, Mannvit og Norðmaðurinn Terje Hagevang. Það er nefnt eftir Eyjólfi Konráði Jónssyni, alþingismanni og fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, en hann var mikill baráttumaður fyrir réttindum Íslendinga á hafsbotni, meðal annars á Jan Mayen hryggnum.

Meðal hundrað stærstu fyrirtækja heims

CNOOC Iceland er í eigu CNOOC Limited, en það er dótturfélag CNOOC Group, sem er alfarið í eigu kínverska ríkisins og á meðal annars félagið China Oilfield Services. CNOOC Group er þriðja stærsta olíufyrirtæki Kína og er jafnan talað um CNOOC, PetroChina og Sinopec sem „hin þrjú stóru“ í olíugeiranum þar í landi. CNOOC hefur aðallega sérhæft sig í leit og vinnslu á kolefnum á sjó úti, en fullt nafn fyrirtækisins vísar til þess, China National Offshore Oil Corporation.

CNOOC Group er meðal stærstu fyrirtækja heims, en árið 2012 náði það 93. sæti yfir stærstu fyrirtæki heims á lista tímaritsins Fortune. Þá er það í 33. sæti yfir stærstu olíufyrirtæki heims. CNOOC Limited sér um olíuleit og vinnslu og er stærsti olíuframleiðandi Kína á hafi úti. Það er skráð hlutafélag í Hong Kong, New York og Toronto, en í meirihlutaeigu kínverska ríkisins, gegnum CNOOC Group.  

Markaðsverðmæti nemur fimmfaldri landsframleiðslu

Tekjur CNOOC árið 2012 voru um 4.700 milljarðar króna, en markaðsverðmæti félagsins var 8.370 milljarðar. Þessar tölur nema margfaldri landsframleiðslu Íslands, sem var um 1.700 milljarðar árið 2012, en markaðsverðmætið slagar hátt í fimmfalda landsframleiðslu. Til samanburðar má einnig geta þess að á fjárlögum ársins 2014 er áætlað að útgjöld ríkisins verði um 590 milljónir. Það er um 7% af markaðsverðmæti félagsins.

Árið 2005 reyndi það að taka yfir bandaríska orkufyrirtækið Unocal fyrir 18,5 milljarða dala, en þurfi að hætta við tilboðið, ekki síst sökum mikillar andstöðu ráðamanna í Washington. Árið 2012 tók það yfir kanadíska orkufyrirtækið Nexen fyrir 15,1 milljarð Bandaríkjadali, jafnvirði um 1.900 milljarða íslenskra króna. Þetta er stærsta beina erlenda fjárfesting kínversks fyrirtækis, en fjárfestar sögðu margir hverjir að kaupin væru óskiljanleg, sérstaklega í ljósi þess að kaupverðið var um 60% hærra en markaðsvirði þess á þeim tíma.

Dropi í hafið

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er kostnaður við rannsóknarvinnu á Drekasvæðinu um tveir til þrír milljarðar króna. Til viðbótar hefur komið fram að hver borhola geti kostað tugi milljarða, en talað er um að þegar ákveðið sé að bora séu um 30-50% líkur á að finna olíulind. Því gæti þurft að bora nokkrum sinnum áður en olía finnst og er nærtækasta dæmið frá Færeyjum þar sem engin olía fannst í nokkra áratugi.

Út frá fjárhagsupplýsingnum CNOOC má sjá fjárfestingar þess hér við land sem hlutfall af heildarfjárfestingagetu eru sem dropi í hafið. Enda greindi Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, frá því í viðtali við mbl.is á dögunum að CNOOC hefði borað um eina borholu á viku í fyrra. Fyrirtækið er 60% hluthafi í þriðja rannsóknar- og vinnsluleyfinu sem var gefið út á Drekasvæðinu og ljóst að bakhjarl þess verkefnis getur ekki gerst mikið stærri.

Þriðja rannsóknar- og vinnsluleyfið nær til græna svæðisins á myndinni. …
Þriðja rannsóknar- og vinnsluleyfið nær til græna svæðisins á myndinni. Blái liturinn táknar rannsóknarsvæði Ithaca Petroleum ehf.(áður Valiant Petroleum), Kolvetnis ehf. og Petoro Iceland AS. Rauði liturinn táknar aftur rannsóknarsvæði Faroe Petroleum Norge AS, Íslensks kolvetnis ehf. og Petoro Iceland AS. Mynd/Orkustofnun
Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir tók við leyfinu fyrir hönd Eykon.
Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir tók við leyfinu fyrir hönd Eykon.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK