Bernanke heldur sínu striki

Fjárfestar hafa fylgst vel með þróuninni á nýmörkuðum.
Fjárfestar hafa fylgst vel með þróuninni á nýmörkuðum. SPENCER PLATT

Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í gær að halda áfram að draga úr mánaðarlegum skuldabréfakaupum sínum, þrátt fyrir að mikill órói ríkti á nýmörkuðum og að atvinnuleysi væri meira en vonir stóðu til.

Bankinn ætlar nú að kaupa skuldabréf fyrir 65 milljarða Bandaríkjadala á mánuði, en ekki 75 milljarða, eins og hann gerði í janúar. Skuldabréfin, sem bankinn kaupir af fjármálastofnunum, eru einn liður í stuðningi bankans við bandaríska hagkerfið.

Á blaðamannafundi í gær sagði Ben Bernanke, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, að bankinn myndi að öllu óbreyttu halda áfram að draga úr kaupunum um tíu milljarða í hverjum mánuði.

Allir samþykktu tillöguna

Athygli vekur að allir tíu meðlimir peningastefnunefndarinnar samþykktu tillögu Bernanke um að draga úr kaupunum á fundi nefndarinnar í gær. Wall Street Journal greinir frá því að þetta sé í fyrsta sinn á átta ára stjórnartíð Bernankes sem allir meðlimir nefndarinnar með tölu greiði atkvæði með tillögu hans.

Bernanke mun stíga til hliðar sem seðlabankastjóri í lok vikunnar og mun þá núverandi aðstoðarbankastjóri, Janet Yellen, taka við starfinu. Verður hún þar með fyrsta konan til að leiða þessa valdamiklu stofnun.

Stanley Fischer, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Ísraels, verður hægri hönd hennar.

Helsta ástæðan fyrir því að seðlabankinn ákvað í lok seinasta árs að draga úr stuðningi sínum við bandaríska hagkerfið var sú að horfurnar í efnahagslífinu væru að batna. Þrátt fyrir að atvinnuleysistölur fyrir desember hefðu valdið stjórnvöldum vonbrigðum mældist hagvöxtur á seinni hluta ársins yfir 3%. Hagvöxturinn var 4,1% á þriðja ársfjórðungi 2013 en í dag kom í ljós að hagvöxturinn á fjórða ársfjórðunginum hefði mælst 3,2%.

Á heildina litið mældist hagvöxturinn á seinasta ári 1,9%, samanborið við 2,8% hagvöxt árið 2012.

Sérfræðingar innan seðlabankans gera ráð fyrir að hagvöxturinn verði í kringum þrjú prósent á þessu ári og fari jafnvel upp í 3,5% á því næsta.

Snarhækkuðu vextina

Horfurnar eru ekki eins bjartar í nýmarkaðsríkjunum, sér í lagi í Indlandi, Suður-Afríku og Tyrklandi, en þar glíma stjórnvöld við mikla verðbólgu og fallandi gengi. Seðlabanki Tyrklands greip til þess ráðs á neyðarfundi rétt fyrir miðnætti síðastliðinn þriðjudag að snarhækka stýrivexti sína, úr 4,5% í tíu prósent, þrátt fyrir mikla andstöðu forsætisráðherrans, Recep Tayyip Erdogans.

Tyrkneska líran, sem hefur tapað þriðjungi af verðgildi sínu gagnvart Bandaríkjadalnum frá því í maí á síðasta ári, styrktist um þrjú prósent strax í kjölfar ákvörðunarinnar og þá hækkuðu hlutabréf fyrirtækja um allan heim.

Erdogan var samt sem áður afar óhress og sagði að stjórnendur seðlabankans gengju erinda „erlendra spákaupmanna“ sem svifust einskis og bæru ekki hag tyrknesku þjóðarinnar fyrir brjósti.

Seðlabanki Indlands ákvað einnig, ekki fyrir svo löngu, að hækka stýrivexti sína.

Seðlabankar í nýmarkaðsríkjunum hafa fylgst vel með gangi mála í Bandaríkjunum, enda hafa örvunaraðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna gríðarleg áhrif á nýmarkaðina, en í tilkynningu, sem peningastefnunefnd bankans sendi frá sér í gær var þó ekkert minnst á ástandið í ríkjunum. Þess í stað fjallaði tilkynningin eingöngu um efnahagsþróunina vestanhafs.

Þyrfti mikið að koma til

„Afstaða seðlabankans er skýr: Hann mun halda áfram að draga úr skuldabréfakaupunum. Það þyrfti mikið að koma til, svo sem veikleikamerki í bandarísku efnahagslífi eða algert hrun á nýmörkuðum, til að bankinn breytti um stefnu,“ segir Ian Shepherdson hjá Pantheon Macroeconomics í samtali við Wall Street Journal.

Bankinn ákvað einnig að halda stýrivöxtum sínum áfram nálægt núlli, þar sem þeir hafa verið frá því seint á árinu 2008. Sagði Bernanke að atvinnuleysi þyrfti að mælast „vel undir“ 6,5% áður en bankinn myndi íhuga að hækka vextina. Í desember var atvinnuleysið 6,7%.

Ben Bernanke, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna.
Ben Bernanke, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna. JIM WATSON
Höfuðstöðvar Seðlabanka Bandaríkjanna í Washington-borg.
Höfuðstöðvar Seðlabanka Bandaríkjanna í Washington-borg. KAREN BLEIER
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK