Verðbólga, mæld á tólf mánaða tímabili er 3,1% í janúar og lækkar hressilega frá desmber er hún var 4,2%. Er þetta minni verðbólga en greiningardeildir höfðu spáð.
Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar lækkaði um 0,72% frá fyrra mánuði. Greingardeildirnar spáðu því að verðlag myndi lækka um 0,4-0,5% í janúar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 1,09% frá desember.
„Víða eru vetrarútsölur og lækkaði verð á fötum og skóm um 10,8% (vísitöluáhrif -0,55%) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 2,8% (-0,13%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 14,6% milli mánaða (-0,21%) og bensín og olíur lækkuðu um 2,5% (-0,14%). Kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns hækkaði um 0,6% (0,17%),“ segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,1% og vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 1,9%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,2% sem jafngildir 0,7% verðbólgu á ári (2,2% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í janúar 2014, sem er 415,9 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2014. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 8.212 stig fyrir mars 2014.