„Þróun fasteignaverðs og verðs á leiguhúsnæði er helsta ógnunin við markmið um verðstöðugleika á Íslandi á þessu ári og brýnt að stjórnvöld bregðist við því. Í janúar 2014 var verðbólgan á Íslandi 3,1% miðað við hækkun vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánuði. Í næsta mánuði er næstum öruggt að verðbólgan verði komin undir 2,5% markmið Seðlabankans því þá fellur mikil hækkun vísitölunnar í febrúar 2013 út úr 12 mánaða viðmiðuninni.“
Þetta segir á vef Samtaka atvinnulífsins í dag. Bent er á að íbúðir og húsaleiga hafi hækkað mikið undanfarin misseri sem aftur hafi haft mikil áhrif á verðbólguna eins og hún sé mæld. „Reiknuð húsaleiga eigin fasteigna hefur nú 13,7% vægi í vísitölunni og greidd húsalega 4,3%, þannig að húsaleiga vegur samtals um 18%. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 8,8% síðustu 12 mánuði og greidd húsaleiga um 7,8% þannig að samanvegið hækkaði húsaleiga um 8,6%. Húsaleiga hafði þannig 1,5% áhrif (18% vægi, 8,8% hækkun) á þá 3,1% verðbólgu sem var síðustu 12 mánuði og aðrir liðir 1,6%.“
Ennfremur segir að þegar næsta mæling verðbólgunnar liggi fyrir í lok febrúar verði verðbólgan líklega á bilinu 2,0-2,5%. „Jafnframt má gera ráð fyrir að húsaleiga verði áfram í 8,5% árstakti hækkunar. Þá verður staðan sú að af 2,0-2,5% verðbólgu stendur húsnæði fyrir 1,5% af þeirri hækkun, eða u.þ.b. tveimur þriðju hlutum verðbólgunnar.“