Gjaldþrotum hefur fjölgað mjög á Spáni og alls urðu 9.660 fyrirtæki og heimili gjaldþrota þar á síðasta ári. Er það aukning um 6,5% frá árinu 2012.
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Spánar eru gjaldþrotin flest í byggingariðnaði.Spánn hefur glímt við kreppu í mörg ár og mælist atvinnuleysið þar um 26%.
En þrátt fyrir að gjaldþrotin hafi aldrei verið jafn mörg þá dregur úr hlutfallslegri aukningu þeirra á milli ára. Aukningin nam 15,1% árið 2011 og 32,2% árið 2012.
Árið 2007 voru gjaldþrotin alls 1.147 talsins.
Í fyrra voru 26,6% allra gjaldþrota í byggingariðnaði. En í fyrra fóru stór fyrirtæki í þrot eins og Pescanova sem framleiddi frosinn fisk. Um tíu þúsund manns misstu vinnuna þar. Heimilistækjaframleiðandinn Fagor fór einnig í þrot í fyrra og misstu tvö þúsund Spánverjar vinnuna þar.