Frá opnun Hamborgarafabrikkunnar hefur borgarabrauðið verið ferkantað en kjötið hringlaga. Þetta hróplega ósamræmi hefur nú verið leiðrétt. Dagurinn í dag er risastór fyrir þá Fabrikkubræður, Simma og Jóa, því fyrir utan að kynna ferkantaða kjötið var einnig skrifað undir við Kringluna.
Frá og með laugardeginum 8. febrúar 2014 verða hamborgarar Fabrikkunnar fullkomlega ferkantaðir, bæði kjöt og brauð. Af þessu tilefni blésu forsvarsmenn Fabrikkunnar ásamt bæjarstjóra Hornafjarðar, Ásgerði Gylfadóttur, til vígsluathafnar á Fabrikkunni. Ásgerður var fengin til þess að sannreyna hornréttindi ferkantaða kjötsins og taka út bragðgæði hamborgarans. Fleiri vísanir í horn voru á vígslunni því að hornaleikarar úr Sinfóníuhljómveit Íslands léku á horn sín til að töfra fram ósvikna hornrétta stemningu. Sérstakur heiðursgestur á vígslunni var svo frændi framkvæmdastjórans, maður að nafni William Horn.
Þeir félagar, Simmi og Jói, eru þekktir fyrir að fara óhefðbundnar leiðir til að kynna sínar vörur og settu að þessu sinni saman myndband í anda þeirra myndbanda sem Apple fyrirtækið sendir frá sér þegar það kynnir til sögunnar nýja síma og tæki. "Okkur hefur alltaf fundist mjög fyndið hvernig forsvarsmenn Apple tala á ofur hátíðlegan hátt um vörur sínar í myndböndum, og ákváðum því að gera samskonar myndband um þessa breytingu á hamborgurunum okkar", sagði Jói í samtali við Mbl.is, en myndbandið má sjá hér að neðan.
Ferkantaða kjötið var ekki eina frétt dagsins hjá Fabrikkunni því að á sama tíma var tilkynnt um opnun nýrrar Hamborgarafabrikku í Kringlunni á vormánuðum. Nýja Hamborgarafabrikkan verður staðsett á slóðum gamla Hard Rock Café þar sem veitingastaðurinn Portið er starfræktur í dag.
Fulltrúar Reita, Kringlunnar og Fabrikkunnar innsigluðu samstarfið á Hamborgarafabrikkunni í dag um leið og Ásgerður bæjarstjóri hafði skolað niður síðasta bitanum af ferkantaða Morthens borgaranum sínum.