Greiningardeild Arion banka segir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sé í dauðafæri að halda verðbólgu skaplegri til lengri tíma en örfárra mánaða í senn. Verðbólgumarkmiðið sé í sjónmáli og á sama tíma hafi stór hluti launþegasamtaka samþykkt kjarasamninga sem ættu að geta samræmst verðbólgumarkmiði, krónan hafi verið bæði sterk og stöðug og verðbólguvæntingar hafi lækkað hægt og bítandi.
Þrátt fyrir að dregið hafi til tíðinda í mörgum þáttum efnahagslífsins frá síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar gerir greiningardeildin ráð fyrir því að nefndin haldi vöxtum óbreyttum á fundi sínum 12. febrúar næstkomandi.
Í umfjöllun sinni segir að jafnvel þótt verðbólga hafi mælst nokkru lægri í janúar en greiningaraðilar bjuggust við og horfur séu á frekari hjöðnun verðbólgunnar í febrúar telji greiningardeildin nær útilokað að það nægi eitt og sér til þess að kalla á lækkun vaxta strax á næsta fundi.
Til viðbótar hafi nefndin í seinni tíð nýtt yfirlýsingar sínar til þess að veita skýra leiðsögn út á fjármálamarkaði, svo breytingar á vaxtastefnunni komi ekki eins og kanínur upp úr hatti.
„Það væri því nýmæli ef nefndin tæki upp á því að lækka vexti öllum að óvörum eftir að hafa veitt leiðsögn um „þéttara taumhald“ á síðasta fundi,“ segir í umfjöllun deildarinnar.