Bandaríska iðnfyrirtækið Silicor Materials er nú að meta Ísland sem stað fyrir uppbyggingu nýrrar verksmiðju fyrir hreinsun og framleiðslu á kísil. Fyrirhuguð árleg framleiðslugeta hennar er um 16.000 tonn og áætlaður byggingarkostnaður 670 milljónir Bandaríkjadollara, tæplega 77 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Ef samningar nást, eins og stefnt er að, hefst uppbygging verksmiðjunnar haustið 2014 og er stefnt að því að fullum framleiðsluafköstum verði náð haustið 2017 eða vorið 2018. Verksmiðjanmyndi skapa meira en 400 störf eftir að starfsemi er komin að fullu í gang, auk þeirra starfa er skapast á byggingartíma.
Silicor Materials framleiðir kísil með nýjum hreinsunaraðferðum. Kísill er notaður til framleiðslu á sólarflekum til raforkuframleiðslu. Aukaafurðir þessa framleiðsluferils eru einnig vörur fyrir iðnað sem notar ál. Í tilkynningunni segir að framleiðsluferlið sé mjög umhverfisvænt, án loft- og vatnsmengunar. Fyrirtækið, sem stofnað var 2006, starfar í þremur löndum: Kaliforníu í Bandaríkjunum, Toronto í Kanada og Berlín, Þýskalandi.
Hreinsunarferli Silicor byggir á því að bræða kvarts í brennsluofni við afar mikinn hita. Síðan hefst vinnsluferli sem er verndað með einkaleyfi þar sem önnur málmtegund er notuð til þess að draga óhreinindi úr kísilmálminum. Í meginatriðum virkar álið eins og svampur og þá verður eftir kísill sem er í sólarorkuvænum gæðaflokki. Þetta er mun ódýrari aðgerð en að breyta kísilmálm í gastegund. Afurðin er kísilmálmflögur sem síðan fara á fast form eftir hreinsun sýrubaðs. Með þessari nýju hreinsunaraðferð hefur tekist að losna við nær alla mengun sem fylgir hinum hefðbundnu hreinsunaraðferðum, um leið og sólarflekar verða ódýrari.