„Vonandi öllum til góðs“

„Þetta er mjög farsælt,“ segir Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, um sölu sjóðsins á 7% hlut í Icelandair Group fyrir 6,6 milljarða kr. í dag.  Árið 2010 keypti sjóðurinn 30% hlut í félaginu fyrir 3,6 milljarða en nú er búið að selja þennan hlut fyrir samtals 15,2 milljarða í fjórum áföngum.

„Ég held að það hafi skipt málið að selja ekki allan hlutinn í einu lagi. Ég held að það sé mjög gott að hafa selt þetta í áföngum, að það sé dreift eignarhald á félaginu. Það sé gott fyrir Icelandair sem er lykilfyrirtæki í ferðaþjónustunni,“ segir Þorkell og bætir við að fyrirtækið sé í traustum og góðum höndum.

Aðspurður segir hann að það liggi ekki fyrir hverjir hverjir keyptu hlutinn. „Það kemur bara í ljós.“

Komu inn þegar Icelandair átti í miklum erfiðleikum

Þorkell tekur fram að sjóðurinn hafi haft þá stefnu að selja hlutina á ákveðnum tímum, þ.e. þegar heimilt sé að selja. „Það er nýbúið að birta uppgjör fyrir félagið. Það er mjög mikilvægt að salan fari fram á réttum tímapunktum; að við séum ekki að trufla markaðinn. Þannig að þetta er mjög farsælt og gott mál og vonandi öllum til góðs,“ segir Þorkell.

Fyrri part árs 2010 keypti sjóðurinn 30% hlut í Icelandair. „Þá var nú félagið búið að vera í miklum erfiðleikum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu,“ segir Þorkell og bætir við að þetta hafi verið um svipað leyti og eldgos varð í Eyjafjallajökli.

„Þetta voru erfiðir tímar og þá komum við þarna inn, sem er okkar hlutverk,“ segir Þorkell og bætir við að keypt hafi verið fyrir 3,6 milljarða kr.

Hann bendir á að þá hafi Icelandair verið á markaði, sem hafi verið nokkuð sérstakt. 

Mismunurinn 11,6 milljarðar króna

Þorkell bendir á að hlutur sjóðsins í Icelandair hafi verið seldur nokkrum áföngum.

„Okkar hlutverk er að koma inn og fara svo út. Við höfum selt á árunum 2011, 2012, 2013 og 2014 - í fjórum áföngum - fyrir 15,2 milljarða. Þannig að þetta eru 11,6 milljarðar sem er mismunurinn,“ segir Þorkell.

Hann bendir á að fjárhæðinni sé skilað til lífeyrissjóðanna og Landsbankans sem eru eigendur sjóðsins. 

„Við endurfjárfestum aldrei heldur skilum þessu til eigendanna sem er almenningur í landinu, lífeyrissjóðir og Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins.“

Aðkoma Framtakssjóðsins mikilvæg

Þorkell bendir á að kaupin hafi verið umdeild á sínum tíma, en þetta var fyrsta fjárfesting sjóðsins.

„Menn voru þá ekki búnir að átta sig á því á þeim tíma hversu mikilvæg aðkoma okkar var í raun, því félagið er í dag burðarásinn í ferðaþjónustunni. Þetta er afar mikilvægt,“ segir Þorkell sem bætir við að á þeim tíma hafi Íslandsbanki verið hluti af þessu verkefni. 

Hann bendir á að sjóðurinn sé búinn að selja fleiri félög, s.s. Húsasmiðjuna, Plastprent og allan eignarhlutinn í Vodafone fyrir nokkru. 

Þá segir Þorkell að fjölmörg verkefni séu framundan. „Við erum með mörg góð félög ennþá og Framtakssjóðurinn er að skoða fleiri fjárfestingarmöguleika. Það eru mörg skemmtileg verkefni ennþá í pípunum,“ segir hann.

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands.
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands. mbl.is/Ernir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK