Vandamál margra íslenskra sprotafyrirtækja hefur undanfarin ár verið skortur á fjármagni og erfiðleikar við að finna mögulega fjárfesta með reynslu og þekkingu af því að setja fjármuni í frumkvöðlafyrirtæki. Þetta segir Guðmundur Páll Líndal, en hann er framkvæmdastjóri Brums, nýs fyrirtækis sem heldur utan um samfjárfestingaverkefni í sprotafyrirtækjum. Á fundi í frumkvöðlasetrinu á Eiðistorgi sagði Guðmundur að mjög fáir frumfjárfestar væru hér á landi og því hefði hann reynt að finna vettvang fyrir þá sem ekki ættu hundruð milljóna til að setja í áhugaverð verkefni.
Guðmundur sagði að þetta væri alls ekki ný hugmynd, heldur „gömul hugmynd færð í nýjan búning“. Sagði hann að skipulagður hlutabréfamarkaður, bankar og jafnvel vátryggingafélög væru dæmi um þróuð samfjárfestingafélög, en með þessari hugmynd væri hún færð í betra form fyrir þá sem hafa áhuga á að fjárfesta í litlum hratt vaxandi fyrirtækjum.
Þegar fyrirtæki hafa ákveðið að fara þessa leið er gerð stutt úttekt á þeim með það fyrir augum að helstu mál séu í lagi, en Guðmundur segir að eftir það sé leitað til leiðandi fjárfesta. Nú þegar er Brum með um 90 slíka á skrá hjá sér, en hann segir að þetta séu aðilar sem séu tilbúnir að fjárfesta fyrir 10 upp í 100 milljónir í hverju verkefni. Þá séu alltaf fleiri að bætast við og að þeir ætli sér að stækka þetta fjárfestanet enn frekar. Það sem gerir þennan kost áhugaverðari fyrir fjárfestana, að sögn Guðmundar, er að á einum stað geti þeir fundið mörg tækifæri og þannig dreift áhættunni milli frumkvöðlafyrirtækja.
Þegar búið er að sækja fé til leiðandi fjárfesta er það sett í sér eignarhaldsfélag sem heldur utan um hlutaféð í viðkomandi fyrirtæki. Guðmundur segir að í framhaldinu geti einstaklingar selt sinn hlut í því eignarhaldsfélagi fram og til baka og þannig verði til verðmyndun á markaðinum, sem nú sé ekki þekkt fyrir sprotafyrirtæki. Með þessari aðferð telur Guðmundur að hægt sé að brúa bilið milli þeirra tveggja heima sem frumkvöðlafyrirtækin og fjárfestar eru í dag.