Evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus mun hugsanlega takast að afhenda katarska flugfélaginu Qatar Airwaves nýjustu afurð sína, A350 XWB, fyrr en áætlað var og þá fyrir desember næstkomandi. Forstjóri flugfélagsins staðfesti þetta en það fær fyrstu vél þessarar gerðar afhenta.
Akbar Al Baker, forstjóri Qatar Airways, sagði þetta í viðtali við singapúrska dagblaðið Singapore today. Flugfélagið hefur pantað áttatíu A350 XWB-þotur en það er helsti viðskiptavinur Airbus.
Jafnframt sagði hann að flugprófanir Airbus gengu betur en áætlað var og er því á undan áætlun. Airbus flaug fyrri flugprófunarvélum sínum 50-55 klukkustundir á mánuði en A350-þotunni hefur verið flogið 100 klukkustundir á mánuði og er það rakið til góðs undirbúnings fyrir flugprófanir.
Á sama tíma og þessar fréttir berast er A350 „stjarnan“ á flugsýningunni í Singapúr sem stendur nú yfir. Er þetta í fyrsta skipti sem henni er flogið á flugsýningu og er búist við að pöntunum fjölgi töluvert við það.
Á myndbandinu hér að neðan má sjá A350 XWB á flugsýningunni í Singapúr.