Á árinu 2013 hækkaði íbúðaverð um 6½%, leiguverð um 10% og velta þinglýstra kaupsamninga jókst um 9½% frá fyrra ári.
Meðalsölutími íbúða hefur einnig styst og var um fimm mánuðir á síðasta ári sem er tveimur mánuðum styttra en árið á undan, samkvæmt Peningamálum Seðlabankans.
Raunverð húsnæðis hækkaði um 2½% að meðaltali milli áranna 2012 og 2013 og er nú litlu hærra en það var haustið 2004, rétt fyrir hinar miklu umbreytingar sem urðu á innlendum íbúðalánamarkaði, segir í Peningamálum.
„Horfurnar fyrir einkaneyslu í ár og á næstu árum litast af aðgerðum stjórnvalda vegna lækkunar húsnæðisskulda heimila enda fyrirséð að þær muni hafa nokkur áhrif á efnahagslega stöðu þeirra og þar með á útgjaldaákvarðanir.
Hreinn auður heimila mun aukast og með auknu veðrými eykst geta þeirra til viðbótarlántöku til að fjármagna einkaneyslu. Heimilin geta einnig tekið aukinn auð út með því að endurfjármagna núverandi húsnæðislán og notað þá fjármuni til að fjármagna aukna einkaneyslu. Þau gætu einnig valið að ganga á annan sparnað í ljósi þess að hreinn auður þeirra í húsnæði hafi aukist. Skuldalækkunin dregur úr greiðslubyrði húsnæðislána sem eykur þá fjármuni sem heimilin hafa til ráðstöfunar eftir að þau hafa greitt af húsnæðislánum.
Á móti vegur þó að í áætlunum stjórnvalda er gert ráð fyrir hækkun framlags launafólks í séreignarlífeyrissparnað sem að öðru óbreyttu dregur úr áhrifum aðgerðarinnar á ráðstöfunartekjur. Þessu til viðbótar gæti orðið tímabundin aukning í einkaneyslu á næstunni þar sem hluti heimila kann að hafa beðið með útgjaldaákvarðanir þar til að niðurstaða stjórnvalda lægi fyrir,“ segir í Peningamálum.