Þurfum áætlun og markmið

Sven Smit, framkvæmdastjóri hjá McKinsey & Company
Sven Smit, framkvæmdastjóri hjá McKinsey & Company Mynd/Árni Sæberg

Ísland þarf að setja sér áætlun og markmið og vita hvert þjóðin eigi að stefna á næstu árum þegar kemur að hagvexti. Þetta sagði Sven Smit, framkvæmdastjóri hjá McKinsey & Company, á Viðskiptaþingi í dag. Smit fór yfir möguleika Íslands og sagði mikilvægt að Ísland myndi skilgreina sig betur, svipað og margar borgir eða lönd eru þekkt fyrir að vera framúrskarandi á ákveðnu sviði.

Í erindi sínu spurði Smit meðal annars salinn hvort hann teldi markmið vera til staðar varðandi vöxt og hvað fólk teldi rétt að hann yrði. Flestir töldu líklegt að vöxtur yrði 2-3% á næstu árum, en að upplýsingar um vöxt væru ekki upp á borðinu eða að stefna væri til staðar.

Hann sagði að vöxtur heimsins á komandi árum myndi byggjast á uppgangi 600 borga í heiminum, en af þeim eru 200 í Kína og 220 á örðum stöðum í Asíu. Hann sagði margar þessara borga vera svipaðar að stærð og Reykjavík og því væri alls ekki óhugsandi fyrir Reykjavík og Ísland að taka hlut af þeim mikla vexti sem framundan er í heiminum.

Smit sagðist í upphafi erindisins vera bjartsýnismaður í eðli sínu, en að hann teldi áætlanir sínar þrátt fyrir það raunhæfar. Sagði hann að þrátt fyrir að margir segi heiminn nú þegar vera orðinn fullan og lítið pláss fyrir mikinn vöxt, þá væri staðreyndin sú að skortur á landi væri ekki staðreynd, síður en svo og umtal um skort á vatni væri ekki skortur á vatni, heldur skortur á orku til þess að færa vatn frá þeim stöðum þar sem nægt vatn er yfir til þurrari staða. Sagði hann að tækniframfarir, meðal annars í matvælaframleiðslu, hefðu sýnt fram á að gott hagvaxtarskeið ætti að vera framundan og að Ísland hefði góða möguleika til að taka þátt í því.

Meðal þess sem Smit sagði að Íslendingar ættu að horfa til væri sæstengur til Bretlands, en hann spáir því að á næstu 10 árum muni Bretland taka fram úr Þýskalandi sem stærsta iðnveldi Vestur-Evrópu.

Eftir erindið var opið fyrir spurningar og spurði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Smit að því hvort mögulegt væri að hagvöxtur á Íslandi yrði samkvæmt væntingum með eigin gjaldmiðil, eða hvort horfa þyrfti til Evrópusambandsaðildar og annars gjaldmiðils. Smit sagði það mögulegt að ganga vel bæði í Evrópusambandinu og utan þess og með eða án eigin fljótandi gjaldmiðils.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK