Laundromat Reykjavík ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, en félagið rak samnefnt kaffihús í Austurstræti. Nýtt félag keypti reksturinn og rekur staðinn með óbreyttu fyrirkomulagi í dag. Fyrrverandi rekstraraðili, Hallur Dan Johansen, hefur enga aðkomu að nýja félaginu, en hann segir að reksturinn hafi verið mikið skuldsettur. Á síðasta ári hafi mikið átak verið í að greiða niður skuldir, en ekki hafi náðst að greiða skuldir við tollstjóra nægjanlega hratt niður og þá var lítið annað í stöðunni en að skila inn vínveitingaleyfinu og selja reksturinn.
Laundromat var úrskurðað gjaldþrota í desember á síðasta ári, en Hallur segir að áætlanir innan fyrirtækisins hafi ekki gengið eftir og því hafi hann ákveðið að stíga til hliðar. Samkvæmt ársreikningi árið 2012 voru skuldir félagsins um 96 milljónir, en Hallur segir að reksturinn hafi alla tíð verið góður. Fjárfestingar hafi hins vegar ekki gengið sem skyldi og því hafi skuldastaðan verið mjög há.
Þegar ekki gekk að greiða niður skuld við hið opinbera á tilgreindum tíma hafi því ekki verið hægt að gera annað en að leggja reksturinn niður og selja hann til annars aðila. Í samtali við mbl.is tekur Hallur fram að þótt ekki hafi náðst að semja við ríkið hafi skuldir félagsins engu að síður minnkað árið 2013.
Hallur hefur síðustu ár verið í samstarfi við Valgarð Sörensen, en þeir voru stjórnarmenn Laundromat. Þeir ráku áður Úrillu górilluna ásamt Laundromat, Hallur er hins vegar hættur öllum afskiptum af rekstri í dag, en Valgarð rekur Hamborgarabúllu Tómasar í London.