Birtir yfir landinu á ný

Regína Bjarnadóttir forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka
Regína Bjarnadóttir forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka Ómar Óskarsson

Það gætir aukinnar bjartsýni meðal greiningaraðila og fjárfestingar eru komnar á skrið á ný. Þrátt fyrir að verðbólga sé nú í nýjum lægðum er þó líklegt að hún muni hækka aftur á næstunni og vera í kringum 4%. Þetta kemur fram í nýtti þjóðhagsspá Arion banka, en hún var kynnt á ráðstefnu með yfirskriftinni „komin upp úr hjólförunum.“ Í fyrra var fyrirsögn sömu ráðstefnu „föst í fyrsta gír“ og sést ágætlega á þeirri breytingu að mikið hefur gerst undanfarið ár.

Á fundinum í morgun fór Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, yfir niðurstöðurnar og sagði hún að mikið hafi verið að gerast á undanförnum sex mánuðum og að greiningardeildin væri orðin ágætlega bjartsýn. „Við sjáum fyrir ágætan hagvöxt,“ sagði Regína. Hún benti á að nýjasta spá Seðlabankans og þessi spá Arion væru þær bjartsýnustu í langan tíma, meðan meiri tregi sé í fyrri spám.

Fjárfestingar komnar af stað á ný

Hagvöxtur á þessu ári verður að mati Arion banka drifinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu. Fjárfestingin er að koma þarna ný inn eftir nokkuð langa fjarveru, en Regína segir að mörg fyrirtæki séu byrjuð að fjárfesta að nýju og þá sé byggingarmarkaðurinn kominn á skrið á ný. Hún segir að vegna þessa vaxtar spái bankinn þó því að utanríkisviðskipti verði neikvæð á þessu ári, en jákvæðari á komandi árum vegna ávaxtar af fjárfestingum.

Horfur í löndunum í kringum okkur skipta einnig miklu máli upp á stöðuna hér á landi. Regína segir að bjart sé yfir á flestum mörkuðum enda séu hagvaxtahorfur í helstu viðskiptalöndum að batna. „Með bættum hagvexti erlendis sjáum við fram á betri tíma hér,“ segir Regína.

Einkaneysla jókst á seinni hluta ársins þrátt fyrir minni sértækar aðgerðir og segir Regína það mjög áhugavert og bendi til þess að betra jafnvægi sé komið á stöðu heimilanna en áður hafði verið gert ráð fyrir. Hún lýsti þó yfir áhyggjum af því að miðað við atvinnuleysistölur og þá staðreynd að á síðasta ári hefðu tvö þúsund erlendir einstaklingar flutt til landsins umfram brottflutta væri vísir á að botni atvinnuleysisins væri náð, þrátt fyrir að það væri enn nokkuð umfram það sem þekktist fyrir hrun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK