Í dag er peningamagn í umferð of mikið og það getur haft áhrif til aukinnar verðbólgu á komandi misserum. Þetta segir Hafsteinn Hauksson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, en í dag var kynnt ný hagsspá bankans. Í samtali við mbl.is segir hann að til skemmri tíma séu horfurnar ágætar, en til lengri tíma séu enn stór úrlausnarefni sem þurfi að vinna að.
„Það er mikil fylgni milli peningamagns í umferð og verðbólgu – engin dæmi um að gjaldmiðill hafi fallið nema peningaleg þensla hafi átt sér stað,“ segir Hafsteinn og segir peningamagnið í dag vera of mikið. Það sé þó ekki vandamál í dag þar vegna haftanna, sem orsaki það að lítill sem enginn veltuhraði er með fjármagn þrotabúa bankanna. Þannig sé það í raun óvirkt, en geti skapað vandamál til aukinnar verðbólgu strax og hreyft verður við höftunum.