Þrátt fyrir miklar hækkanir á hlutabréfum hér á landi undanfarin ár er fátt sem bendir til þess að bóla sé að myndast á hlutabréfamarkaði, að mati sérfræðinga á fjármálamarkaði.
Í fréttaskýringu um þetta efni í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag kemur fram, að í skjóli gjaldeyrishafta og fárra fjárfestingarkosta er ákveðinn eftirspurnarþrýstingur, þar sem til að mynda lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og tryggingafélög þurfa að ávaxta fé sitt á litlum og lokuðum markaði, sem ætla megi að þrýsti ávöxtunarkröfu markaðarins til hlutabréfa niður og leiði þannig til hærra markaðsverðs.
Sé hins vegar litið til þekktra verðkennitalna virðist sem svo að markaðurinn í heild sé ekki yfirverðlagður, eins og sagt er, þó svo að hlutabréf fáeinna félaga geti verið metin of hátt. Þá er ljóst að þær hækkanir sem hafa orðið á hlutabréfum íslenskra félaga eru ekkert einsdæmi. Hlutabréf hafa hækkað mjög víða um heim en í Bandaríkjunum á sér stað, svo eitt dæmi sé tekið, sama umræða og hér um hvort bólueinkenni sé að finna á markaðinum.