Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tilkynnt Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra að embættið verði auglýst laust til umsóknar á næstunni. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að það sé „gert til að gefa stjórnvöldum aukið svigrúm í tengslum við mögulegar breytingar á lögum um Seðlabankann“.
Á ríkisstjórnarfundi í morgun var minnisblað um endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands kynnt. Þar er meðal annars sagt að skipaður verði starfshópur til að leggja mat á æskilegar breytingar á starfsemi Seðlabanka Íslands og þeirri lagalegu umgjörð sem um starfsemina gildir. Starfshópurinn mun leggja til breytingar á lögum um Seðlabankann sem miða að því að því að bæta möguleika hans til að sinna efnahagsstjórn þjóðarinnar.
Samkvæmt heimildum mbl.is telur fjármála- og efnahagsráðuneytið mikilvægt að starfshópurinn skoði hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðs og Fjármálaeftirlitsins með það að leiðarljósi að skýra verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Í ljósi fjölgunar viðfangsefna á ábyrgðasviði bankans, svo sem gjaldeyrishafta, gjaldeyriseftirlit og eignarsafn bankans, þá þurfi að tryggja að öll umgjörð bankans styðji við markmið um verðstöðugleika og aðra kjarnastarfsemi bankans.