Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, hækkuðu um rúmlega 15,5% milli ára og námu 3,03 milljónum króna á mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka sem birtur var í vikunni.
Árið 2012 námu laun Birnu 2,63 milljónum króna á mánuði.
Í uppgjörinu segir að laun hennar hafi numið 36,4 milljónum króna á öllu síðasta ári, samanborið við 31,5 milljónir árið 2012. Laun hennar jukust því sem nemur tæplega 400 þúsund krónum á mánuði. Þá fékk hún jafnframt árangurstengda greiðslu upp á 3,6 milljónir króna í fyrra, að því er fram kemur í uppgjörinu.
Þá hækkuðu laun þeirra sjö einstaklinga sem sitja í framkvæmdastjórn bankans milli ára. Í fyrra námu þau 180,7 milljónum króna, borið saman við 171,7 milljónir króna árið 2012. Þeir fengu að sama skapi árangurstengda greiðslu upp á 18,2 milljónir króna í fyrra.
Í uppgjörinu kemur einnig fram að þeir níu einstaklingar sem sitja í stjórn bankans hafi fengið greiddar 44,2 milljónir króna í fyrra. Það er hækkun upp á rúm sex prósent milli ára en árið 2012 fengu þeir greiddar 41,5 milljónir króna. Þá voru stjórnarmennirnir reyndar einum færri en í fyrra.