Innritunum í sjávarútvegstengt nám fjölgaði um 25% á síðasta ári og hefur nemendafjöldi á síðustu fjórum árum næstum tvöfaldast. Þá hefur fjölbreytni námsbrauta á þessu sviði aukist umtalsvert. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Sjávarklasans, en aukninguna má sérstaklega merkja í nýsköpun og fullvinnslu afurða og matvælafræði. Nýskráningum í fiskeldisfræði og haf- og strandsvæðastjórnun hefur aftur á móti fækkað á sama tíma.
Sjávarklasinn segir að sókn ungs fólks í grunnnám tengt sjávarútvegi og aukinn áhugi á námi í matvælafræði og þverfaglegu námi á sviði sjávarútvegs sýni fram á aukinn áhuga á nýsköpun í greininni. Þá hafi fjöldi nemenda við skipstjórnarskólann nærri þrefaldast á árunum 2008 og 2013 og enn aukist nýskráningar. Að lokum séu eftirtektarverð umskipti í aðsókn í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri en námið hefur verið eflt, m.a. með aukinni tengingu við atvinnulífið. Heildarfjöldi nemenda þar hefur aldrei verið meiri en nú leggja 69 nemendur stund á sjávarútvegsfræði.