Jesús drukkinn á páskunum

Bjórinn Jesús er sá 24. í röðinni frá Borg.
Bjórinn Jesús er sá 24. í röðinni frá Borg.

Á síðustu árum hefur árstíðabundinn bjór orðið æ vinsælli og er það ekki síst að þakka fjölda tegunda frá minni brugghúsum. Þá hefur tilraunastarfsemi verið viðloðandi þessa bruggun og Íslendingar því fengið meiri fjölbreytni en áður. Hinn 5. mars mun sölutímabil páskabjórs hefjast, en meðal annars mun Borg brugghús setja á markað bjórinn Jesú, en hann er númer 24 í röðinni hjá Borg.

Kristilegur með kakóbragði

Óli Rúnar Jónsson, verkefnastjóri hjá Borg, segir í samtali við mbl.is að brugghúsið hafi farið í samstarf við súkkulaðigerðina Omnom við gerð bjórsins. Kakónibbur frá Madagaskar voru sérstaklega pantaðar og eru þær notaðar til að fá sérstakt bragð. Þá er bjórinn látinn liggja á eikartunnum og þrír mismunandi gerstofnar notaðir við bruggunina. 

Síðustu ár hefur brugghúsið lagt upp úr því að hafa kristilegan blæ á nöfnum páskabjórsins, en í fyrra var Júdas til sölu og árið áður Benedikt. Óli Rúnar segir að það sé óumdeilt að Jesús sé einn af meginkarakterum kristindómsins og því hafi þótt við hæfi að nýta nafnið núna.

Nafngiftin ekki vandamál

Aðspurður hvort hann telji að nafngiftin muni valda deilum eða að ÁTVR muni gera einhverjar athugasemdir segist Óli Rúnar ekki hafa heyrt af neinu slíku. „Við vitum ekki til þess að nafngiftin verði vandamál,“ segir hann, en enginn hefur hingað til haft samband við þá og Óli Rúnar segir að ÁTVR sé nú þegar búið að panta bjórinn frá þeim. Jesús verður 7% ljóst öl, en áfengismagn Júdasar var í fyrra 10,5%.

Sex aðrar tegundir páskabjórs verða til sölu í þetta skiptið, en sölutímabilið er frá 5. mars til 19. apríl. Þær eru Víking páskabjór, Páskakaldi, Víking páska Bock, Páskagull, Gæðingur páskabjór og Þari páskabjór Steðja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK