Fyrir einu ári voru félagarnir Benedikt Skúlason og Guðberg Björnsson með frumgerð að léttasta fjaðrandi hjólagaffli í heimi í höndunum, þar sem algjörlega ný hönnum leit dagsins ljós. Nú ári seinna er gaffallinn að komast í framleiðslu og stefnt er að auknu markaðsstarfi á erlendri grundu. Viðræður við stóra hjólaframleiðendur hafa staðið yfir síðustu mánuði og ef allt gengur að óskum er stutt í að þessi nýja hönnun gæti orðið staðalbúnaður á hjólum fyrir þá kröfuhörðustu. Mbl.is ræddi við Benedikt um starfið á liðnu ári og næstu skref.
„Í fyrra vorum við aðeins með heimasmíðaðar frumgerðir af hjólagafflinum,“ segir Benedikt. Þær hafi aðeins sýnt fram á grundvallarvirknina, en nú sé gaffallinn að detta í fjöldaframleiðslu hjá einum stærsta koltrefjaframleiðanda í heimi á sviði hjólavara. Hann segir fyrstu afhendingar vera í maí, en Benedikt segir að fyrstu mánuðirnir fari í að afhenda gaffla til þeirra sem höfðu forpantað og dreifingaraðila sem höfðu tryggt sér eintök. Það er því ljóst að margir hafa verið spenntir fyrir þessari vöru, en Benedikt segir að mörg keppnislið í hjólreiðum hafi haft samband við þá og hafi fengið að prufa frumgerðirnar.
Fyrst um sinn verða framleiddir nokkur hundruð gafflar í hverjum mánuði, en Benedikt segir að ef viðræður við hjólaframleiðendur gangi eftir gæti sú tala hæglega aukist töluvert, enda séu stóru tölurnar á þeim markaði. Í næstu viku fer Benedikt ásamt Guðbergi til Kína í fimmta skiptið á síðustu 12 mánuðum, en Benedikt segir að þar muni þeir fylgjast með þegar framleiðslan verði flutt úr takmörkuðu upplagi yfir í fjöldaframleiðslu
Í viðtalinu við mbl.is í fyrra voru þeir í miðju verki að leita fjárfesta, en Benedikt segir að það hafi gengið vel og þeir hafi fengið 50 milljónir frá nokkrum einstaklingum til að koma verkefninu af stað. Nú þegar varan er á leið í framleiðslu tekur við næsta skref sem er aukin markaðsstarfsemi og sala og segir Benedikt að þeir muni á næstunni leitast við að fjölga starfsfólki á þessum sviðum. Segir hann að uppbygging erlends vörumerkis muni kosta töluverða fjármuni og því stefni þeir á að sækja um 200 milljónir til viðbótar í fjárfestingu á næstu misserum. „Flestir sem komu inn áður ætla að koma inn með hærri upphæðir núna,“ segir Benedikt.
Meðal starfsmanna Lauf forks er Rúnar Ómarsson, einn af stofnendum Nikita, en Benedikt segir að það hafi reynst fyrirtækinu mjög verðmætt að hafa einstakling innanborðs sem hefur byggt upp alþjóðlegt fyrirtæki, en Nikita selur snjóbretta- og götufatnað og var fyrir þremur árum selt til finnska fyrirtækisins Amer sports.
Nú þegar hafa birst mjög jákvæðar umsagnir um gaffalinn hjá erlendum fagmiðlum, en Benedikt segir að þeir hafi komist ódýrt frá því að standa í auglýsingum og kynningum þar sem sérstaða vörunnar hafi strax vakið athygli og margir hafi spurst fyrir að fyrra bragði.
Hröð uppbygging Lauf forks hefur komið þeim nokkuð á óvart, en áætlanir þeirra gerðu upphaflega ráð fyrir að koma hugsanlega fyrstu göfflunum í framleiðslu rétt fyrir áramót. Hann segir þá því vera um 9 mánuðum á undan áætlun og nú sé stefnt að því að ná góðum sölutölum fyrir árslok.