Vísitala neysluverðs hækkar um 0,67% milli mánaða, samkvæmt nýrri mælingu Hagstofu Íslands. Helstu skýringar á hækkuninni nú eru útsölulok og hækkun á flugfargjöldum.
Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar 2014 er 418,7 stig (maí 1988=100) og hækkaði um 0,67% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 394,9 stig og hækkaði um 0,87% frá janúar.
Vetrarútsölum er víða lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 7,1% (vísitöluáhrif 0,33%). Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 11,0% (0,14%) en verð á dagvörum lækkaði um 0,6% (-0,11%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,1% og vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 0,8%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,5% sem jafngildir 1,9% verðbólgu á ári (0,4% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).