Íslandsbanki er efnislega ósammála Neytendastofu sem fyrr í dag birti ákvörðun þess efnis að bankinn hafi brotið gegn ákvæðum eldri laga um neytendalán við upplýsingagjöf á verðtryggðu húsnæðisveðláni. Íslandsbanki hyggst áfrýja málinu til áfrýjunarnefndar neytendamála.
Í tilkynningu frá bankanum segir að efnislega segi í 12. gr. laga um neytendalán að ef lánssamningur heimili verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljist hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skuli reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.
„Fyrir gildistöku nýrra laga um Neytendalán árið 2013 byggði Íslandsbanki framkvæmd sína við veitingu verðtryggðra lána á þeirri túlkun orðanna „óbreytt verðlag“ í 12. grein laga um neytendalán að gera ætti ráð fyrir óbreyttri vísitölu neysluverðs. Í ákvörðun sinni túlkar Neytendastofa fyrirmæli greinarinnar þannig að gera skuli ráð fyrir sömu verðbólgu og var þann mánuð sem lánið var veitt. Þeirri túlkun er bankinn ósammála.“
Frétt mbl.is: Íslandsbanki braut gegn lögum