Hagnaður Landsbankans nam 28,8 milljörðum króna eftir skatta á árinu 2013 samanborið við 25,5 milljarða króna á árinu 2012. Aukningin skýrist einkum af hærri þjónustutekjum, virðisbreytingum lána og hlutabréfa auk lækkunar á kostnaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Haft er eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóra að afkoman sýni traustan rekstur á öllum sviðum. „Tekjur bankans fara hækkandi og á sama tíma hefur verið dregið verulega úr rekstrarkostnaði. Arðsemi eigin fjár er ágæt þrátt fyrir hátt eiginfjárhlutfall. Vegna traustrar lausafjárstöðu í erlendri mynt greiddi bankinn annað árið í röð stóra fjárhæð inn á skuld sína við LBI hf. Þá greiddi Landsbankinn um 10 milljarða króna í arð á árinu og bankaráð hefur samþykkt að leggja til við aðalfund bankans að greiddur verði 20 milljarða króna arður vegna reksturs ársins 2013.“
Reiknaðir skattar Landsbankans hækka um 8,2 milljarða króna miðað við árið á undan og nema nú 12,3 milljörðum. Steinþór segir augljóst að svo þungir skattar kunni að hafa áhrif á kjör til viðskiptavina til lengri tíma.
Arðsemi eigin fjár eftir skatta hækkar lítillega, þrátt fyrir hækkun eiginfjár. Arðsemin var 12,4% árið 2013 samanborið við 12,0% árið 2012. Hreinar vaxtatekjur námu 34,3 milljörðum króna á árinu 2013 en árið 2012 námu þær 35,6 milljörðum króna. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar lítillega, var 3,1% á árinu 2013 en 3,2% árið 2012.
Hreinar þjónustutekjur námu 5,3 milljörðum króna og hafa aukist um rúmlega 800 milljónir frá því árið áður, eða um 19%. Að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunlækkun rekstrarkostnaðar milli ára verið 10,1%. Markmið bankans fyrir árið 2013 var að lækka rekstrarkostnað bankans um 5%.
Laun og tengd gjöld lækka um 4% milli ára, en sú lækkun er að frádreginni gjaldfærslu launa vegna móttöku hlutabréfa frá LBI hf. þar sem sama fjárhæð er einnig færð til tekna í bókhaldi bankans. Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum lækkar um 9%. Stöðugildi í lok árs voru 1.183 og fækkaði um 50 á árinu.
Eigið fé bankans nam í lok árs 2013 um 241,4 milljörðum króna. Það hefur hækkað um 7% frá áramótum 2012 þrátt fyrir 10 milljarða króna arðgreiðslu á árinu. Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) er vel umfram kröfur Fjármálaeftirlitsins. Það var 26,7% í lok árs 2013 en 25,1% í lok árs 2012.
Heildareignir bankans námu 1.152 milljörðum í lok árs 2013. Aukningin er um 6% milli ára og skýrist helst af auknum lausafjáreignum. Bankinn hefur lánað rúma 143 milljarða króna í ný útlán á árinu en vegna afborgana og styrkingar krónunnar og þar með lækkunar erlendra lána aukast heildarútlán um samtals 14 milljarða króna. Innlán viðskiptavina án fjármálafyrirtækja jukust um 8,5% á árinu eða um 35,6 milljarða.
Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 5,3% í lok árs 2013, en voru 8,3% á sama tíma árið áður.