Það er gífurlega mikilvægt að fá svona stórt verkefni eins og Hlíðarenda af stað og koma fjölda íbúða út á markaðinn. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur, en í dag var kynnt uppbygging á allt að 850 íbúðum á svæðinu, þar af 650 á vegum Valsmanna hf. Dagur segir að greining Reykjavíkur bendi til þess að það þurfi allavega 2.500 íbúðir á markaðinn sem fyrst. „Því fyrr sem þetta fer af stað, þeim mun betra segjum við.“
Dagur segir vinnu við deiliskipulag kringum Hlíðarendareitinn ekki tengjast flugvallarmálinu því það sé löngu búið að ganga frá samningum um að þriðja brautin leggist af. Á fundinum tóku talsmenn allra flokka og stjórnarformaður Isavia undir þau sjónarmið og sögðu að stóra spurningin núna væri hvort Hlíðarendi væri síðasti hluti uppbyggingar Hlíðahverfisins eða fyrsti hlutinn af Vatnsmýrinni.
Í samtali við mbl.is líkti Dagur hugmyndinni um hverfið við skipulag evrópskra stórborga og sagði útfærslu á samgöngum, þá sérstaklega hjólreiðum, mjög spennandi. Reykjavík á hluta af Hlíðarendalóðinni, en Dagur segir að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvenær farið verði í útboð eða framkvæmdir þar.
Frétt mbl.is: Íbúðir á Hlíðarenda gætu orðið 850
Frétt mbl.is: Áherslan á smærri íbúðir við Hlíðarenda