Hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja var 64,5 milljarðar á síðasta ári og dregst saman um rúmlega einn og hálfan milljarð milli ára. Á sama tíma jukust skattgreiðslur þeirra um rúmlega 12 milljarða og voru 30,7 milljarðar á síðasta ári. Arðsemi eigin fjár var 8,73% hjá Arion banka, 12,4% hjá Landsbankanum og 14,7% hjá Íslandsbanka. Þetta er meðal þess sem lesa má úr ársreikningum þeirra sem birtir voru nýlega.
Hagnaður Landsbankans var mestur, eða 28,8 milljarðar, meðan hagnaður Íslandsbanka var 23,1 milljarður og Arion banka 12,7 milljarðar. Hann jókst um rúmlega 3 milljarða hjá Landsbankanum milli ára, en hjá Arion banka dróst hann saman um rúmlega 3 milljarða og hjá Íslandsbanka um 300 milljónir. Til að setja þessar hagnaðartölur í samhengi, þá nemur samtals hagnaður bankanna um 177 milljónum á hvern dag, eða 198 þúsund krónum yfir árið á hvert mannsbarn á Íslandi
Íslandsbanki greiddi hæstu skattana, eins og árið áður, en í fyrra greiddi bankinn 12,4 milljarða í skatta til ríkisins. Landsbankinn kom þar skammt á eftir með 12,3 milljarða, en Arion banki rak lestina með 6 milljarða í skattgreiðslur.
Starfsfólki fækkaði hjá öllum bönkunum á síðasta ári, en í heild fækkaði starfsmönnum bankanna um 162 og voru þeir 3.384 að meðaltali í fyrra. Mest fækkun átti sér stað hjá Íslandsbanka, en þar fækkaði um 67 stöðugildi í fyrra, meðan Landsbankinn fækkaði um 50 stöðugildi. Starfsmönnum Arion banka fækkaði um 45 á sama tíma.