Guðrún Hafsteinsdóttir var í dag kjörin formaður Samtaka iðnaðarins, en hún tekur við af Svönu Helen Björnsdóttur. Í samtali við mbl.is segir Guðrún að sérstaklega þurfi að huga að því að koma fjárfestingu af stað, en auk þess liggi vaxtamál og skattkerfið þungt á atvinnulífinu.
Hún segir nauðsynlegt að gefa í með iðn- og tæknimenntun og þá eigi að nýta auðlindir skynsamlega, en hún er hlynnt því að horft sé áfram til þess að fjárfesting fari meðal annars í orkufrekan iðnað. Aðspurð um gjaldmiðlamálin segir hún að Ísland búi við krónuna og þannig verði það eflaust í einhver ár í viðbót. Hún tekur þó fram að krónan sé ekki stærsta vandamálið, heldur hagstjórnin.