Launamunur bankastjóra viðskiptabankanna þriggja er enn meiri en mbl.is greindi frá í gær. Þar kom fram að laun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, hefðu verið 26,2 milljónir á síðasta ári, en rétt er að þau voru 22,2 milljónir. Fjórar milljónir, sem bankinn greiddi í mótframlag í lífeyrissjóð voru reiknaðar með, en ekki í tilfellum hinna bankastjóranna. Heildarlaunagreiðsla Steinþórs inniheldur 4,2 milljónir sem hann eignaðist í bankanum, en á síðasta ári samþykkti hluthafafundur að starfsmenn bankans myndu eignast 1% hlut í bankanum.
Mánaðarlaun Steinþórs námu því 1,85 milljónum á mánuði í fyrra, en til samanburðar voru mánaðarlaun Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, 4,2 milljónir á mánuði. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var með 3,3 milljónir í mánaðarlaun, en þar af voru 300 þúsund krónur á mánuði í árangurstengdar launagreiðslur. Launamunur milli bankastjóra er því allt að 130%.