Hefði annars látið málið niður falla

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði ekki áfrýjað dómi héraðsdóms um launamál sín til Hæstaréttar ef hann hefði ekki notið atbeina Seðlabanka Íslands. Annars hefði hann látið málið niður falla. Nauðsynlegt hefði verið, að mati bæði formanns bankaráðsins og hans sjálfs, að fá niðurstöðu í málið. Þetta kom fram í máli hans í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Eins og greint hefur verið frá greiddi Seðlabanki Íslands málskostnað Más vegna málareksturs hans gegn bankanum vegna launamála. Lára V. Júlíusdóttir, fyrrverandi formaður bankaráðsins, segist hafa ákveðið að bankinn skyldi greiða kostnaðinn en hún leitaði ekki eftir umboði bankaráðs.

Athygli vekur að Seðlabankinn sóttist eftir því fyrir dómi á báðum dómstigum að Már greiddi málskostnað bankans. Lára sagði í viðtali við Morgunblaðið að það væri eðlileg krafa sem væri höfð uppi í öllum dómsmálum.

Aðspurður hvort bankaráð hefði vitað af þessu sagðist Már ekki hafa hugmynd um það. Hann sæti ekki á þeim bankaráðsfundum þar sem mál hans væru rædd. Hann sagði hins vegar að hefðin væri sú að þegar kæmi að málum sem sneru að fjárhagslegum málefnum seðlabankastjórans þá væru þau rædd í gegnum samtöl formanns bankaráðs og hans. Síðan tæki formaðurinn málin upp í bankaráðinu eftir atvikum.

Már sagðist ekki ætla að dæma um það hvernig embættisfærslan var af hálfu Láru. Hún hefði talið sig hafa umboð til að taka þessa ákvörðun.

Nauðsynlegt að fá niðurstöðu í málið

Már höfðaði málið eftir að kjararáð hafði lækkað laun hans og annarra embættismanna á grundvelli laga nr. 87/2009. Hann taldi að ekki hefði verið heimilt að skerða laun hans og starfskjör eftir skipun í embætti, en tapaði málinu fyrir bæði héraðsdómi og Hæstarétti. Úrskurðað var að málskostnaður félli niður, það er að báðir aðilar bæru sinn kostnað.

Í viðtalinu sagði Már það hafa verið nauðsynlegt að fá niðurstöðu í málið. „Ég taldi eftir nokkra skoðun, og ræddi það við formann bankaráðsins, að það þyrfti að fá einhverja niðurstöðu í málið. Eina leiðin til að fá úr þessu skorið var fyrir dómstólum,“ sagði hann.

Hann bætti því við að það sem gert var í þessu tilviki ætti sér mörg fordæmi, til dæmis þjóðlendumálin, þar sem bændur fóru í mál við ríkið en umsamið var að ríkið greiddi allan kostnað. Það væri eina leiðin til að fá úr málinu skorið.

Már sagði það hafa verið skyldu sína að fara með málið alla leið. Nú væri það erfiðara fyrir ríkið að „framvæma svona lagað í framtíðinni. Ef ég hefði ekki gert þetta hefði verið hægt að saka mig um að standa ekki vaktina“, sagði hann. „Mér ber skylda til að verja sjálfstæði bankans og stöðu embættis seðlabankastjóra.“

Launalækkunin ekki aðalatriðið

Í huga Más var launalækkunin sem slík ekki aðalatriðið. Hann sagði að launalækkunin við það að skipta um starf hefði hvort eð er verið það mikil, sama hvað ákvörðun kjararáðs liði. „Hitt skiptir mig miklu máli hvernig að þessu öllu var staðið.“

Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss áður en var ráðinn seðlabankastjóri.

Hann játaði því að hann og Lára hefðu haft frumkvæði að málinu. „Auðvitað tapaði ég málinu þannig séð en það fékkst niðurstaða í gegnum málareksturinn, sem virtist ekki hægt að fá eftir neinum öðrum leiðum,“ sagði hann.

Aðspurður sagðist hann enn vera að íhuga hvort hann ætlaði að sækja um starf seðlabankastjórans aftur. Atburðir undafarinna daga hefðu ekki breytt neinu hvað það varðar. „Ég hef sagt að ég sé tilbúinn að fara inn í næsta tímabil. Mér finnst ég vera enn í miðri á með sum mál,“ útskýrði hann.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK