Opna Serrano og Nam á Nýbýlavegi

Emil Helgi Lárusson, einn tveggja eigenda Serrano og Nam veitingastaðanna. …
Emil Helgi Lárusson, einn tveggja eigenda Serrano og Nam veitingastaðanna. Á næstu vikum munu tveir nýir staðir opna á Nýbýlavegi í Kópavogi. Rósa Braga

Á næstunni verða nýir Serrano- og Nam-veitingastaðir opnaðir á Nýbýlavegi í Kópavogi, en áður var verkstæðismóttaka Toyota á þessum stað. Þetta staðfestir Emil Helgi Lárusson, annar eigenda, við mbl.is. Stefnt var að því að opna Serrano í næstu viku, en það lítur út fyrir að ætla að dragast um eina viku, en Nam verður opnaður í apríl.

Aðgengi og staðsetning skiptu miklu um valið

Emil segir að það hafi tekið smátíma að klára öll mál með byggingarfulltrúa en þegar það var komið í höfn hafi allt gengið nokkuð hratt fyrir sig. Verða staðirnir á austurenda Toyota-húsnæðisins en Bónusverslun er á hinum endanum.

Emil segist telja staðsetninguna góða þar sem hingað til hafi ekki verið mikið um veitingastaði á þessu svæði. Á sama tíma sé svæðið kringum Smára- og Lindahverfið hinum megin í Kópavogi orðið næststærsta veitingahúsahverfi höfuðborgarsvæðisins. „Þarna er mjög gott aðgengi og staðsetningin er sýnileg,“ segir Emil um það sem skipti mestu þegar staðsetningin var ákveðin.

Nýi staðurinn verður níundi Serrano-staðurinn á landinu, en fyrir eru sjö á höfuðborgarsvæðinu og einn á Akureyri. Þá er þetta annar Nam-staðurinn, en fyrir er einn á Höfðabakka. Emil segir að Serrano-staðurinn verði með svipuðu sniði og aðrir staðir, en horft sé til þess að Nam-staðurinn taki breytingum á kvöldin og verði þá þjónað til borðs. Alls verða 20 sæti á Serrano en milli 50 og 60 á Nam.

Fyrirmynd Nam er Michelin-veitingastaður

Emil segir að þeir Einar Örn Einarsson, meðeigandi hans, hafi lengi viljað færa út hugmyndina með Nam-staðinn, sem kom upphaflega til sem austurlensk útgáfa af Serrano. Segir Emil að þeir hafi meðal annars leitað til kokks sem vann fyrir þá í Svíþjóð, en þar hafa þeir einnig opnað Serrano-stað, og fengið hann til að setja saman matseðilinn fyrir Nam.

Kokkurinn var nokkuð kunnugur austurlenskri matargerð, en hann vann áður á austurlenskum Michelin-veitingastað í Stokkhólmi og sagðist ætla að byggja matseðilinn á þeim grunni. Emil segir nokkuð fyndið að hugsa til þess að Michelin-matur hafi orðið að fyrirmynd fyrir skyndibita á bensínstöð á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK