Hagnaður tryggingafélagsins Varðar nam 506 milljónum á síðasta ári og hækkaði úr 431 milljón árið áður. Þetta er mesti hagnaður í sögu félagsins. Iðgjöld ársins voru 4.974 milljónir og hækkuðu um rúmlega 360 milljónir milli ára. Tjón numdu 3.507 milljónum og jukust um tæplega 200 milljónir milli ára.
Heildareignir félagsins í lok ársins voru 9.663 milljónir og jukust um rúmlega 600 milljónir milli ára. Eigið fé er 3.019 milljónir og jókst um tæplega hálfan milljarð og er eiginfjárhlutfall 31,6%. Arðsemi eigin fjár var 19% á síðasta ári.
Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segist í tilkynningu vera stoltur af árangri félagsins á undanförnum árum. „Rekstur félagsins gekk vel á síðasta ári og er afkoman sú besta í sögu félagsins, sem er sérlega ánægjulegt. Samsetta hlutfallið heldur áfram að lækka, eiginfjárhlutfallið að styrkjast og gjaldþolið að aukast. Allt þetta skilar sér í sterkara félagi og góðri arðsemi eigin fjár en hún var hæst hjá Verði á síðasta ári af öðrum vátryggingafélögum á Íslandi. Þá hefur viðskiptavinum fjölgað jafnt og þétt ár frá ári sem hefur skilað sér í aukinni hlutdeild á tryggingamarkaði. Ég þakka starfsfólki félagsins þá miklu umbreytingu sem orðið hefur á félaginu á fáeinum árum. Við erum stolt af þessum góða árangri,“ segir Guðmundur.
Vörður tryggingar hf. er í eigu færeyska bankans BankNordik (áður Føroya Banka).