„Kvótakóngar íslenskrar ferðaþjónustu“

Deilt er um það hvort rukka megi inn á svæði …
Deilt er um það hvort rukka megi inn á svæði Geysis í Haukadal. Gjaldheimta á að hefjast seinna í dag. Rax / Ragnar Axelsson

Stjórnvöld sýna ekki neinn vilja í verki til að stíga fram og stöðva gjaldheimtu á einstaka stöðum og þeim hefur meðal annars mistekist að gera það við Geysi, þar sem gjaldheimta mun hefjast seinna í dag. Þetta segir Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Snæland Grímsson. Hallgrímur segir að með þessu áframhaldi stefni bæði í náttúrupassa og einstaka gjaldheimtu og þá sé ekki langt í að upp rísi ný stétt kvótakónga í íslenskri ferðaþjónustu.

„Kvótakóngar í ferðaþjónustu“

„Málið er komið út í algjöra vitleysu og það er ekki heil brú í því sem verið er að gera,“ segir Hallgrímur. Hann segir að með gjaldtöku á einstaka stað sé verið að vega að ferðafrelsi landsmanna, en eins og staðan er í dag segir hann að það stefni í að innheimt verði fyrir náttúrupassa til viðbótar við fjölmarga staði sem hafi lýst því yfir að þeir ætli að fara í innheimtu. 

„Ég sé ekki betur en að stjórnvöld virðist ekki hafa neina stjórn á þessu málum,“ segir hann. Eftir að einn staður hefur gjaldheimtu munu fleiri fylgja í kjölfarið að sögn Hallgríms, en hann segir að þetta muni skapa nýja kvótastétt. „Það verða til kvótakóngar íslenskrar ferðaþjónustu.“ Hann segist óttast að þegar menn fari að finna peningalyktina muni þeir fljótlega hækka verð og segist ekki gera ráð fyrir því að gjaldið inn á Geysissvæðið verði fjórar evrur lengi. Þá sé heldur ekki langt í að menn geti farið að veðsetja slík ferðamannasvæði með tilheyrandi óstöðugleika.

Lítið heyrst frá SAF og Icelandair

Hallgrímur furðar sig á því að Samtök ferðaþjónustunnar hafi ekki gert meira í þessu máli eða stærsti einstaki ferðaþjónustuaðilinn á Íslandi, Icelandair. „Þetta kemur í bakið á ferðaþjónustunni með litlum fyrirvara,“ segir hann, en margir hafa selt pakkaferðir til Íslands þar sem allt sé innifalið og því komi svona gjald niður á ferðaþjónustufyrirtækjum en ekki ferðamönnunum sjálfum fyrsta árið. Hann segir þetta skapa algjört öngþveiti, en nú þegar hafi margar erlendar ferðaskrifstofur haft samband við hann og spurt hvað sé eiginlega að gerast. 

Hallgrímur segist í sjálfu sér ekki vera á móti gjaldi á ferðamenn, en að það þurfi að gera slíkt með yfirvegun og með fyrirvara. Hann segir að hreinlegast væri að setja á einhverskonar komugjald og að slíkt gjald gæti verið 10 evrur án þess að hafa mikil áhrif. Mikið hærra gjald gæti aftur á móti farið að hafa neikvæð áhrif.

Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Snæland Grímssonar.
Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Snæland Grímssonar.
Byrjað verður að rukka inn við Geysi seinna í dag.
Byrjað verður að rukka inn við Geysi seinna í dag. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK