Rætt var um miðilinn auroracoin á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun, en þar var lögð áhersla á að fræða og vara neytendur við áhættunni sem fyrirbærið kunni að skapa. Þetta segir Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður nefndarinnar, en hann segir að samstaða hafi verið á fundinum um að mikil áhætta gæti skapast af notkun miðilsins.
Pétur segir að margvísileg mál tengt auroracoin hafi verið rædd á fundinum, en meðal annars hvernig miðillinn komi út í skattalegu samhengi. Þá benti hann á að þeir sem stæðu á bak við miðilinn hefðu gefið það út að takmarkað magn yrði sett fram af miðlinum, en að þar væru menn að treysta í blindni á að því yrði ekki breytt og sagðist Pétur hafa talsverðar áhyggjur af því hvernig miðillinn væri varinn með eignarrétti. Þannig hefði það t.d. sýnt sig í nokkur skipti með bitcoin-miðilinn að óljóst væri hvernig beri að verja þann rétt einstaklinga.
„Menn sakna þess að neytendur hafi ekki verið varaðir við þessum miðli,“ segir Pétur, en eftir rúmlega 10 daga hafa forsvarsmenn auroracoin gefið út að þeir ætli sér að gefa öllum Íslendingum nokkrar einingar af miðlinum.
Á fundinum voru meðal annars fulltrúar frá Seðlabanka Íslands og segir Pétur að rætt hafi verið um það hvort þessi miðill falli utan við lög og reglur um fjármagnshöft og að Seðlabankinn hafi verið í sambandi við erlenda seðlabanka sem hafi undanfarið brugðist við bitcoin-væðingunni. Pétur segir að ekki hafi enn komið neitt út um hvort Seðlabankinn muni aðhafast eitthvað út af miðlinum, en að verið sé að fara yfir þau mál.
Pétur segir að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að ekki sé um viðurkenndan gjaldmiðil að ræða þar sem enginn bakki miðilinn upp. Aðspurður segir hann hins vegar að dæmi séu um gjaldmiðla sem ekki hafi verið bakkaðir upp af ríkisvaldi, en að hér á landi séu lög í gangi varðandi gjaldmiðla og þessi miðill falli þar ekki undir.