Frostfiskur í Ólafsvík þarf að greiða fimmfalt hærra verð fyrir orku í dag vegna skerðingar á umframorku í kjölfar minnkandi vatnsforða í miðlunarlónum Landsvirkjunar. Þetta setur allt að 190 störf í hættu, en Steingrímur Leifsson, framkvæmdastjóri og eigandi í Frostfiski, segir í samtali við mbl.is að reksturinn sé í uppnámi og að leitað sé allra leiða til að finna aðra orkugjafa, en nú þarf fyrirtækið að treysta á dísilrafstöð og mun hærra orkuverð vegna þess.
Orkufyrirtækin hafa lengi boðið upp á svokallaða umframorkusamninga, en með því fá notendur orku sem verður til utan annatíma á hagstæðara verði. Meðal fyrirtækja sem hafa nýtt sér þetta eru fiskbræðslur og fyrirtæki sem þurrka fisk. Í samningunum er raforkusalanum heimilt að skerða dreifingu umframorku, en Steingrímur segir að það hafi aldrei verið álíka mikið og núna. Áður fyrr hafi þetta verið hálfur eða einn dagur vegna bilana eða breytinga á kerfinu. Núna sé aftur á móti horft til tveggja mánaða tímabils.
„Þetta setur verksmiðjuna í uppnám og þau 40 störf sem eru hér,“ segir Steingrímur, en fyrirtækið er einn stærsti vinnuveitandi í bæjarfélaginu. Hann segir að verksmiðjan hafi verið tekin í gagnið árið 2005 og að þá hafi það verið vilji allra hluteigandi, bæjarfélagsins, orkusalans og fyrirtækisins sjálfs, að hafa verksmiðjuna í Ólafsvík. Ákveðnar forsendur hafi þá verið settar upp, en með stöðunni í dag séu þær allar brostnar.
Það er ekki einungis starfsemin í Ólafsvík sem er í óvssu, því Steingrímur segir alla starfsemi fyrirtækisins haldast í hendur. „Ef ekki fæst orka til að reka þurrkunina í Ólafsvík þá eru störfin í Þorlákshöfn í hættu líka,“ segir hann og bætir við að frystihúsið í Þorlákshöfn og þurrkunin í Ólafsvík séu partur af sömu heild. „Við rekum ekki vinnslu í Þorlákshöfn ef við getum ekki rekið þurrkunina í Ólafsvík líka.“ Í Þorlákshöfn starfa í dag um 150 manns hjá fyrirtækinu.
Steingrímur tekur fram að orkusölufyrirtækið sé ekki að brjóta samninga, en að það sé ljóst að samningarnir hafi verið mjög slæmir og þeir telji sig vera svikna. Hann bendir á að menn hafi aldrei talið líkur á því að skerðingin gæti orðið svona langvinn.
Ólafsvík er á köldu svæði og því er ekki hægt að nýta jarðvarma til þurrkunarinnar. Steingrímur segir að þeir séu núna að reikna út hvort hægt sé að nýta varmadælur og að leitað sé allra leiða til að skipta um orkugjafa, en annars væri hagstæðast að færa verksmiðjuna á heitt svæði.
Meðan varanleg lausn er ekki fundin segir Steingrímur þó að ekki komi annað til greina en að halda verksmiðjunni opinni, jafnvel þótt reksturinn í þessu umhverfi sé ekki hagstæður. Hann segir að hægt væri að loka, segja upp starfsfólki og stoppa að taka á móti hráefni frá vinnslu félagsins í Þorlákshöfn og öðrum samstarfsaðilum, en þá væri verksmiðjan ekki að fara að opna aftur.
Frostfiskur rekur frystihús og fiskverkun í Þorlákshöfn til viðbótar við þurrkunina í Ólafsvík. Þá þjónustar þurrkunin aðrar vinnslur í nálægum bæjarfélögum.