Stofnað verði fjármálastöðugleikaráð

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram frumvarp til laga um fjármálastöðugleikaráð. Í frumvarpinu er lagt til að settur verði á stofn formlegur vettvangur stjórnvalda sem hafa á yfirsýn yfir stöðu og þróun fjármálamarkaðar.

Gerð er tillaga um stofnun annars vegar fjármálastöðugleikaráðs, en í því munu sitja ráðherra, og er hann formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og hins vegar kerfisáhættunefndar sem undirbýr umfjöllun fjármálastöðugleikaráðsins.

Í kerfisáhættunefnd sitja fimm manns. Seðlabankastjóri, sem er formaður nefndarinnar, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem er varaformaður, sá stjórnenda Seðlabanka Íslands sem fer með málefni fjármálastöðugleika, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og einn sérfræðingur í málefnum fjármálamarkaðar eða hagfræði sem ráðherra skipar án tilnefningar til fimm ára í senn.

Hvorki fjármálastöðugleikaráði né kerfisáhættunefnd er ætlað að hrófla við sjálfstæði Seðlabanka Íslands eða Fjármálaeftirlitsins, að því er fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.

Móti opinbera stefnu um fjármálastöðugleika

Formaður fjármálastöðugleikaráðsins, sem verður sjálfur fjármálaráðherrann, mun kalla ráðið saman til fundar þrisvar sinnum á ári en oftar telji einhver ráðsmaður þörf á. 

Helstu verkefni fjármálastöðugleikaráðs eru að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika; að meta efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata og aðrar aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika; að skilgreina þær aðgerðir, aðrar en beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum, sem eru taldar nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið og að stafesta skilgreiningar á kerfislega mikilvægum eftirlitsskyldum aðilum, innviðum og mörkuðum sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra getur haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Leggur mat á kerfisáhættu í fjármálakerfinu

Lagt er til að kerfisáhættunefnd komi saman til fundar að minnsta kosti sex sinnum á ári en oftar telji einhver nefndarmanna aðildarstofnana fjármálastöðugleikaráðs þörf á.

„Kerfisáhættunefnd leggur mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika. Nefndin nýtir til þess greiningarvinnu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem kveðið er á um í samstarfssamningi stofnananna, svo og greiningarvinnu annarra innlendra og erlendra aðila eftir því sem tilefni er til,“ segir í frumvarpinu.

Nefndin mun jafnframt fjalla um samspil beitingar stýritækja aðildarstofnana sem áhrif hafa á fjármálastöðugleika, að undanskildum stýritækjum Seðlabanka Íslands á sviði peningamála.

Nefndin gerir einnig tillögur til fjármálastöðugleikaráðs í samræmi við lög og starfsreglur nefndarinnar.

Brugðist við meginveilu

Í greinargerðinni segir enn fremur að með ákvæðum frumvarpsins sé brugðist við einni þeirra meginveilna sem í ljós komu í kjölfar fjármálakreppunnar, þ.e. skorti á tengslum heildar- og eindaeftirlits á fjármálamörkuðum sem leiddi til þess að enginn einn aðili hafði heildaryfirsýn yfir stöðu fjármálakerfisins.

Frumvarpið er að meginefni til byggt á tillögum nefndar sem í sátu fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu. Nefndin skilaði af sér frumvarpsdrögum í apríl 2013. 

Hvorki fjármálastöðugleikaráði né kerfisáhættunefnd er ætlað að hrófla við sjálfstæði …
Hvorki fjármálastöðugleikaráði né kerfisáhættunefnd er ætlað að hrófla við sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK