Seðlabankinn dregur enn úr stuðningi sínum

Janet Yellen, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í dag.
Janet Yellen, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í dag. ALEX WONG

Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað að halda áfram að draga úr beinum skuldabréfakaupum sínum á markaði á fundi peningastefnunefndar bankans í dag. Bankinn ætlar nú að kaupa 55 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 6.233 milljarða íslenskra króna, á mánuði í viðleitni sinni til að örva bandaríska hagkerfið.

Í seinasta mánuði keypti bankinn 65 milljarða Bandaríkjadala. Bankinn kaupir skuldabréfin af bönkum og fjármálafyrirtækjum.

Kaupunum, sem eru liður í örvunaraðgerðum bankans, er fyrst og fremst ætlað að koma hjólum atvinnulífsins af stöð, draga úr atvinnuleysi og auka fjárfestingar. Stöðugur bati hefur verið á bandarískum vinnumarkaði undanfarið ár og hafa forsvarsmenn bankans því talið óhætt að draga úr kaupunum.

Það var undir stjórn Ben Bernankes, fyrrverandi seðlabankastjóra, að bankinn ákvað að byrja að draga úr stuðningi sínum við bandarískt efnahagslíf í desembermánuði í fyrra. Eins og kunnugt er tók Janet Yellen við starfi hans í febrúar og virðist ætla að fylgja sömu stefnu og forveri sinn.

Yellen sagði á blaðamannafundi eftir fund peningastefnunefndarinnar í dag að ástæðan fyrir því að ákveðið hafði verið að draga enn frekar úr skuldabréfakaupunum væri sú að undirliggjandi styrkur hagkerfisins væri nægur til að stuðla að umbótum á vinnumarkaði.

Hún sagði jafnframt að bankinn myndi líklegast ekki hækka stýrivexti sína fyrr en á næsta ári, að minnsta kosti á meðan atvinnuleysi væri enn of hátt og verðbólgan stöðug.

Peningastefnunefndin hefur áður gefið til kynna að hún muni íhuga vaxtahækkanir þegar atvinnuleysi næði 6,5%. Samkvæmt nýlegum tölum mældist atvinnuleysi 6,7% í febrúar.

Seðlabankinn spáir nú 2,8 til 3 prósenta hagvexti á þessu ári og 3 til 3,2 prósenta hagvexti á því næsta. Þá spáir hann því að atvinnuleysi muni fara niður í 6,1% á árinu og 5,6% á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK