Starfsmenn Landsbankans sem fengu gefins hlutabréf í bankanum seinasta sumar fá um 161 milljón króna í arð. Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var í dag, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins í fyrra sem nemur 0,84 krónum á hlut. Það samsvarar um 70% af hagnaði.
Hagnaður Landsbankans nam 28,8 milljörðum króna eftir skatta á árinu 2013 og nemur því arðgreiðslan af þeirri upphæð 20,16 milljörðum króna. Ríkið á 97,9% hlut í bankanum og fær því í sinn hlut rúma 19,7 milljarða króna.
Landsbankinn hf. heldur á 1,3% hlut í bankanum og um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans eiga 0,8% hlut, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu bankans.
Miða skal við hlutaskrá í lok 19. mars 2014 og að útborgunardagur verði 26. mars 2014.
Þetta er önnur arðgreiðslan sem starfsmenn bankans fá, en síðasta haust greiddi Landsbankinn út arð í fyrsta sinn eftir bankahrunið. Þá fengu starfsmenn um 50 milljónir króna.