Rekstur Orkuveitunnar hefur styrkst mikið og það lítur út fyrir að markmið Plansins muni nást. Árangur þess er nú þegar 13% umfram áætlun miðað við ársreikning fyrir árið 2013, en síðan þá hefur félagið selt hlut í HS veitum og má gera ráð fyrir að staðan í dag sé því nær því að vera 16% umfram áætlun. Þetta kom fram á kynningarfundi í Orkuveitunni í dag.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir að þrátt fyrir þennan árangur sé reksturinn ekki enn orðinn traustur, en sé á góðri leið þangað. Þetta hefur meðal annars skilað sér í því að erlendir bankar eru farnir að sýna fyrirtækinu áhuga varðandi endurfjármögnun af fyrra bragði. „Það er eitthvað nýtt fyrir okkur,“ segir Bjarni.
Planið svokallaða, aðgerðaráætlun sem sett var fram árið 2011 um rekstur næstu fimm ára, gerði ráð fyrir að félagið myndi ná 53,1 milljarði með innri og ytri aðgerðum, en meðal annars þurfti 12 milljarða lán frá eigendum veitunnar. Þetta virðist hafa skilað sér, en farið var í mikla hagræðingu og eru starfsmenn fyrirtækisins nú meðal annars tvö hundruð færri en árið 2009. Þá var stefnt að lækkun fjárfestingakostnaðar í veitukerfum á tímabilinu upp á 15 milljarða og sölu eigna upp á 10 milljarða. Gjaldskrá hefur einnig verið hækkuð nokkuð sem á að skila um 8 milljörðum yfir tímabilið í hærri tekjum.
Þegar horft er aftur sést að þessar aðgerðir hafa skilað hækkun í tekjum um 13,2 milljarða á fimm árum, en þær voru á síðasta ári 39,2 milljarðar. Þá hefur rekstrarhagnaður hækkað úr 13 milljörðum árið 2009 upp í 26,1 milljarð og er EBITDA hlutfallið 66,5% í dag. Hagnaður eftir afskriftir hefur á sama tíma togast upp og er nú 17,2 milljarðar, en árið 2009 var hann 5,2 milljarðar.
Þessi áform skiluðu sér strax í reksturinn árið 2012, en Bjarni segir að strax þá hafi hann verið nokkuð góður. Aftur á móti hafi skuldabagginn verið nokkuð þungur það árið, en afborganir lána voru um 25 milljarðar árið 2012. Í ár og næstu ár er aftur á móti gert ráð fyrir um 16-17 milljarða afborgunum á ári. Þetta skilaði sér í því að heildarhagnaður fyrirtækisins var 3,35 milljarðar á síðasta ári, samanborið við 2,3 milljarða tap árið á undan.
Bjarni segir að styrking krónunnar hafi hjálpað fyrirtækinu en á móti komi lækkað álverð. Þetta tvennt núllaði hvort annað út á síðasta ári að hans sögn. Þrátt fyrir aukið olnbogarými og að reksturinn hafi styrkst mikið þá segir Bjarni að enn sé ekki kominn tíma til að horfa á hraðari niðurgreiðslu lána eða breytingar á fjárfestingastefnu eða endurnýjunaráformum.
Meðal þeirra eigna sem Orkuveitan á enn en hefur í hyggju að selja er 49% hlutur í Gagnaveitunni og 6,8% hlutur í Landsneti. Bjarni sagði á kynningarfundi í dag að þó að stefnt væri að þessari sölu, þá væri staða Orkuveitunnar þannig í dag að það væri vel hægt að bíða eftir rétta verði og ekki væri farið í neina brunaútsölu.