Konur eru ekki hræddar við áhættu, heldur eru þær meðvitaðar um hana. Þetta segir Barbara Stewart, hjá Eignastýringunni Cumberland í Kanada og sérfræðingur í fjárfestingum kvenna, en hún var með erindi á morgunfundi Kauphallarinnar og VÍB í Hörpu í morgun. Stewart hefur á undanförnum árum talað við hundruði kvenna varðandi fjárfestingar og hvað hafi áhrif á þær í því samhengi, en hún segir að konur séu enn stór markaður varðandi hlutabréf sem eigi eftir að stækka mikið á komandi árum.
Konur fjárfesta mun minna en karlmenn í hlutabréfum í dag, en aðeins 30% fjárfesta í Kauphöll Íslands eru konur, meðan tæplega 60% eru karlar. Stewart segir að hún hafi lesið mikið um konur og fjárfestingar og það hafi komið henni á óvart hversu neikvætt það hafi almennt verið. Miklu púðri hafi verið eytt í að segja að konur væru ekki jafn djarfar og karlar og fylgdu frekar öðrum fjárfestum frekar en að taka ákvarðanir fyrstar. Hún sagði þetta vera í andstöðu við það sem hún hafi upplifað úr sinni vinnu þar sem margar konur væru mjög öflugir fjárfestar. Hún ákvað því að skoða málið nánar og gaf út niðurstöður úr rannsókn sinni nýlega.
Stewart segir að konur virðist mikið velta því fyrir sér í hverju þær fjárfesta og að þær vilji bæði skilja og tengjast fjárfestingunni. Þannig séu þær líklegar til að fjárfesta í fyrirtækjum sem framleiða vörur sem þær sjálfar kaupa og nota. Þá segir hún það gegnumgangandi að konur undirmeti sig og eigin þekkingu sambandi við fjárfestingar, en að gjörðir þeirra sýni þó, svo ekki sé um villst, að þær taki virkan þátt í fjárfestingum. Ekki hlusta á það sem konur segja, heldur horfið á hvað þær gera,“ sagði Stewart.
Hingað til hafa karlmenn aðallega verið markhópur í hlutabréfaviðskiptum, en Stewart segir að konur séu óplægður akur á þessum markaði og að þeir sem átti sig fyrst á því og taki fyrsta skrefið til að virkja þennan markað að fullu muni standa mjög framarlega. Það þarf þó að hafa nokkra hluti í huga í þessu samhengi og Stewart segir að konur læri almennt um fjárfestingar með sögum eða reynslu úr eigin lífi. Þá vilji þær geta prófað sig áfram í fjárfestingum og gert rannsóknir á þeim fjárfestingamöguleikum sem í boði eru. Þegar þær hafi hins vegar lært á markaðinn séu þær fljótar að tileinka sér eiginleika hans. Þær séu hins vegar almennt langtímafjárfestar og horfi minna á skammtímabreytingar.
Með fjölgun kvenna í hlutahafahóp fyrirtækja aukast einnig líkurnar á því að konur verði kosnar í stjórnir fyrirtækja, en Stewart segir að það leiði svo til fjölbreyttari stjórnunarhóps sem leiði til þess að ákvarðanir séu byggðar á breiðari grundvelli upplýsinga sem skilar sér í betri rekstri fyrirtækjanna.