Fyrirtaka var í dag í máli þrotabús Fons gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni vegna láns sem Fons veitti í júní árið 2008. Ætlunin með láninu var að kaupa hlutafé í Williams-kappakstursliðinu. Í júlí 2008 var einn milljarður króna færður af reikningum Fons yfir á persónulegan tékkareikning Jóns Ásgeirs í tveimur greiðslum. Komið hefur fram að lánið hafi átt að vera til félagsins Þú Blásól, en svo virðist sem peningarnir hafi aldrei ratað inn á reikninga Blásólar. Að sama skapi var lánið afskrifað strax í febrúar 2009, meira en tveimur árum fyrir gjalddaga þess.
Málarekstur slitastjórnarinnar snýst að miklu leyti um viðskiptafléttu með fyrirtækið Aurum Holdings. Milljarðurinn sem var millifærður á Jón Ásgeir í júlí 2008 kom upphaflega til ráðstöfunar Fons vegna sex milljarða láns til félags í eigu Fons, FS38 ehf. Það lán fékk félagið til að kaupa umrædda hluti í Aurum af Fons.
Í samtali við mbl.is segir Óskar Sigurðsson, skiptastjóri Fons, að það sé skoðun þrotabúsins að um gjafagjörning sé að ræða og farið er fram á að Jón Ásgeir verði dæmdur til að greiða einn milljarð til búsins. Þá sagði hann að málið færi nú í aðalmeðferð, en málið hefur dregist mikið á langinn. Þannig hætti dómari með málið og var fyrirtakan nú vegna skipunar nýs dómara.