Verðbólgan mældist undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands nú í marsmánuði, annan mánuðinn í röð, og er útlit fyrir að hún verði á svipuðum slóðum fram eftir ári.
Þetta segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,24% í mars frá fyrri mánuði. Mælingin var lítið eitt undir spá greiningardeildarinnar, 0,3% hækkun, en opinberar spár voru á bilinu 0,1% - 0,4% hækkun.
Verðbólga síðustu tólf mánaða mælist nú 2,2%, en var 2,1% í febrúar. Raunar er tólf mánaða taktur verðbólgu án húsnæðis 0,8%, og því er drjúgur meirihluti verðbólgunnar nú til kominn vegna hækkandi íbúða- og leiguverðs, að því er fram kemur í umfjöllun greiningardeildarinnar.
„Að vanda vógu útsölulok til hækkunar VNV í mars. Verð á fötum og skóm hækkaði um 3,9% milli mánaða í mars, sem hefur áhrif til um 0,19% hækkunar VNV. Í heild vó verðhækkun vegna útsöluloka til 0,22% hækkunar VNV, sem er aðeins meira en við bjuggumst við,“ segir greiningardeildin.
„Á móti hækkun á fötum lækkaði verð á raftækjum um 0,6% milli mánaða sem kom okkur óvart, en sú lækkun stafar eflaust af styrkingu á gengi krónunnar og jafnvel gætir hér áhrifa af aukinni samkeppni verslana hér á landi við erlendar netverslanir,“ bætir hún við.