Verðbólgumarkmið gætu haldist í ár

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Ólöf Nordal formaður bankaráðs Seðlabankans og Már …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Ólöf Nordal formaður bankaráðs Seðlabankans og Már Guðmundsson Seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

„Hald­ist gengi krón­unn­ar til­tölu­lega stöðugt eru horf­ur á að verðbólga hald­ist við mark­mið á þessu ári. Leggj­ast þar á eitt hag­stæð verðbólguþróun það sem af er þessu ári, vís­bend­ing­ar um að hækk­un launa­kostnaðar hafi verið minni á síðustu miss­er­um en áður var talið, að kjara­samn­ing­ar sem náðust um ára­mót­in og sam­rýmd­ust verðbólgu­mark­miði virðast ætla að verða ráðandi varðandi flesta aðra kjara­samn­inga og að horf­ur eru á að alþjóðleg verðbólga verði á næst­unni nokkru minni en áður var spáð.“

Þetta sagði Már Guðmunds­son, seðlabanka­stjóri, meðal ann­ars í ræðu sinni á árs­fundi Seðlabanka Íslands sem fram fór í dag. Þessu hefði verið öf­ugt farið á síðasta ári þegar verðbólga og verðbólgu­vænt­ing­ar hafi lengst af verið vel fyr­ir ofan verðbólgu­mark­mið bank­ans á sama tíma og efna­hags­bat­inn hafi sótt í sig veðrið og verðbólgu­spár miðað við þáver­andi gengi bent til þess að taka myndi nokk­urn tíma að ná mark­miðinu. Þetta hafi breyst í fe­brú­ar síðastliðnum þegar verðbólgu­mark­miðið hafi náðst í fyrsta sinn síðan snemma árs 2011.

Verðbólga gæti auk­ist til lengri tíma litið

„Litið til lengri tíma en árs gæti verðbólg­an hins veg­ar auk­ist á ný þegar slak­inn hverf­ur úr þjóðarbú­skapn­um og áhrifa auk­inn­ar fjár­fest­ing­ar og skulda­lækk­un­araðgerða gæt­ir með meiri þunga í inn­lendri eft­ir­spurn. Hvað það gæti þýtt varðandi verðbólgu­stigið ræðst af fram­vindu verðbólgu og verðbólgu­vænt­inga á þessu ári og öðrum þátt­um sem gætu haft áhrif á eft­ir­spurn á næstu miss­er­um. Það er verk­efni pen­inga­stefnu­nefnd­ar á næst­unni að ákveða með hvaða hætti verður brugðist við mis­mun­andi horf­um til skemmri og lengri tíma varðandi þróun verðbólgu með það að leiðarljósi að hún hald­ist áfram við mark­mið,“ sagði hann enn­frem­ur.

Seðlabanka­stjóri gerði einnig að um­fjöll­un­ar­efni sínu af­nám gjald­eyr­is­haft­anna og sagði að stóra mynd­in í þeim efn­um hefði lítið breyst síðustu miss­er­in. Hún fæl­ist í því að aðgang­ur inn­lendra aðila fyr­ir utan ríkið og Seðlabank­ann að er­lend­um lána­mörkuðum væri tak­markaður. Á sama tíma væri fyr­ir­sjá­an­legt að viðskipta­af­gang­ur næstu ára yrði ekki næg­ur til þess að fjár­magna samn­ings­bundn­ar af­borg­an­ir er­lendra lána að óbreyttu. „Þá eru hugs­an­lega kvik­ar krón­ur í hönd­um er­lendra aðila nú um fimmt­ung­ur lands­fram­leiðslu og gætu farið upp í nærri hálfa lands­fram­leiðslu ef krónu­eign­ir búa föllnu bank­anna yrðu að fullu inn­heimt­ar og greidd­ar kröfu­höf­um. Ísland hef­ur hins veg­ar eng­an af­gang af gjald­eyris­tekj­um til að leysa út þess­ar krónu­stöður.“

Aðeins eitt tæki­færi til að gera upp búin

Lausn­in í þess­um efn­um fæl­ist í því að dreifa end­ur­greiðslum er­lendra lána, ganga frá þeim krónu­vanda sem teng­ist upp­gjöri búa fall­inna fjár­mála­fyr­ir­tækja þannig að ekki væri aukið á greiðslu­jafnaðar­vand­ann og opna markaðsaðgang fyr­ir inn­lenda aðila. „En til að slík­ar aðgerðir skili á heild­ina litið þeim ár­angri sem að er stefnt er mik­il­vægt að áhrif­in á greiðslu­byrði er­lendra skulda, hvort sem er í er­lend­um eða inn­lend­um gjald­miðli, verði á öll­um tím­um viðráðan­leg, að staðinn verði vörður um skulda­stöðu rík­is­sjóðs, láns­hæf­is­mat og aðgang að er­lend­um lána­mörkuðum og að aðrir inn­lend­ir aðilar hafi aðgang að er­lend­um lána­mörkuðum á viðráðan­leg­um kjör­um í fram­hald­inu.“

Þá lagði Már áherslu á að aðeins eitt tæki­færi feng­ist til þess að gera upp bú föllnu bank­anna enda um óaft­ur­kræfa gern­inga að ræða og því mik­il­vægt að vel tæk­ist til. „Það breyt­ir því ekki að eins og ég hef sagt áður eykst kostnaður við höft­in með tím­an­um og mik­il­vægt varðandi fram­far­ir og hágæða hag­vöxt að þau verði losuð fyrr en síðar. Þá er mik­il­vægt að við lær­um það af reynslu okk­ar og annarra að óheft­um fjár­magns­hreyf­ing­um fylg­ir ekki ein­ung­is ávinn­ing­ur held­ur einnig áhætta. Viðeig­andi varúðarregl­ur og aðrar ráðstaf­an­ir verða að vera til staðar til að mæta henni þegar skrefið verður stigið.“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri og Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son for­sæt­is­ráðherra.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK